11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (2086)

85. mál, endurskoðun fátækralaga

Fyrirspyrjandi (Hákon Kristófersson):

Jeg skal byrja með því að þakka hæstv. atvrh. (Kl. J.) fyrir svar hans í þessu máli. Það var, eins og vænta mátti, skýrt og skorinort, að því leyti sem það náði. Mjer kom það nú ekki á óvart, þótt hann lýsti yfir því, að hin fyrverandi stjórn hefði ekkert gert í þessu máli. Hinn fyrverandi atvrh. (P. J.) er nú látinn, og vil jeg því ekki fara mikið út í þá hlið, er að honum snýr, að öðru leyti en því, sem orð hæstv. núverandi atvrh. (Kl. J.) gáfu tilefni til.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) sagði, að hinn fráfarandi, látni atvrh. (P. J.) hefði haft svo mikla þekkingu á þessu máli, að hann vegna þess hefði ekki sint því; breytingar að svo stöddu yrðu ekki til bóta. En jeg verð að segja það, að þeir eru fleiri en hann, sá látni heiðursmaður, sem þekkingu hafa á þessu máli og eru annarar skoðunar. Í þeim flokki er bæði jeg og margir aðrir. Og að minsta kosti átti hin fyrverandi stjórn að gera grein fyrir því, hvers vegna hún sinti þessu ekki, og því sló hæstv. atvrh. (Kl. J.) föstu, og var það vitanlega rjett.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) gat þess, að þetta væru ung lög og góð. En þar má nú segja, að sínum augum lítur hver á silfrið. Það eru ekki allir, sem hafa jafnmikla trú á lögunum og hæstv. atvrh. (Kl. J.). Þá gat hann þess, að undirbúningur þessara laga hefði verið góður, nefndin ágæt, og stjórnin hefði verið ánægð með lögin. En stjórnin mun nú hafa haft skamman tíma til að athuga lögin áður en hún lagði þau fyrir þingið. Og svo sannar það í sjálfu sjer ekkert, þó að stjórnin hafi á sínum tíma verið ánægð með lögin, því að þau eru nú orðin 16 ára gömul, og margt hefir breyst í þjóðlífi voru síðan. Enda hefir það komið á daginn, að menn víðsvegar um land eru orðnir sáróánægðir með lögin, þótt ekki komi það beint fram í þingmálafundargerðum. Margir hafa í Barðastrandarsýslu orðað það við mig að fá þeim breytt til batnaðar, og jeg hefi heitið að gera mitt ítrasta í því efni. Einnig er mjer kunnugt um það, að Strandamenn hafa falið þm. sínum að vinna að því að fá lögunum breytt, sjerstaklega hvað sveitfestisatriðið snertir. Og svo mun víðar vera.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) kvaðst ekki geta orðið sammála mjer um nauðsyn á lenging frestsins samkv. 66. grein. það er nú í sjálfu sjer ekkert aðalatriði. En víða er þannig háttað, að það getur orðið ómögulegt fyrir oddvitana að koma tilkynningu til sýslumanns eða bæjarfógeta innan 14 daga. Jeg skal taka til dæmis Geiradalshrepp, sem er austast í Barðastrandarsýslu, en sýslumaðurinn situr á Patreksfirði, sem er vestast í sýslunni. Þar sem nú þannig er högum háttað, þá er það óneitanlega hart, að viðkomandi hreppur missi rjett til endurgreiðslu á hinum veitta sveitarstyrk, ef tilkynningin til sýslumanns er ekki komin í tæka tíð, innan þessa stutta frests.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) ljet þá skoðun sína í ljós, að hann væri hlyntur 1. lið þál. till. frá 1917, sem fer fram á það, að ekki skuli teljast til sveitarstyrks það, sem þegið er vegna ómegðar, sjúkdóma, slysa eða þess háttar. Jeg er honum sammála um þetta að því er við kemur sjúkdómum og slysum, en jeg get ekki gengið svo langt að samþykkja ákvæði hennar um ómegð. Jeg vil nú ekki hjer í hv. deild nefna dæmi til sönnunar máli mínu, þar sem slíkur styrkþegi gæti orðið til hins mesta byrðarauka fyrir viðkomandi hrepp, ef hann byggi áfram við sömu kringumstæður og yki ómegð sína, án þess að viðkomandi hreppsnefnd gæti rönd við því reist, ef þetta ákvæði þál.till. frá 1917 væri tekið upp.

Þar sem jeg nú vænti þess, að hv. deild geri enga ályktun um þessa fyrirspurn mína, vona jeg fastlega, að hæstv. atvrh. (Kl. J.) gefi skýra og glögga yfirlýsingu um það, hvort hann vilji ekki slá því föstu, sem virtist liggja í orðum hans, að hann ætlaði að athuga sveitfestislögin og gera till. um þau til næsta þings, því að annars verð jeg eða aðrir þm. að koma með till. til árjettingar þál.till. frá 1917 og 1921. En mjer skildist það á hæstv. atvrh. (Kl. J.), að hann mundi hafa þetta í huga.

Jeg heyrði að vísu ekki vel, hvað hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) sagði um fátækraflutninginn, en mjer skildist þó, að hann slægi föstu því, sem raunar hefir oft áður komið fram í hv. þingdeild, að þurfamenn mundu sæta ómannúðlegri meðferð. Jeg get nú ekki sagt um, hvernig þessu er varið um land alt, en mjer þykir þetta þó fulldjarft talað, því að jeg hefi oft sjeð og framkvæmt fátækraflutning sjálfur, en aldrei sjeð þeim vesalings mönnum misboðið á nokkurn hátt, eða flutning þeirra gerðan erfiðari en frekast er unt. Því getur hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) og aðrir hv. þm. ekki sagt, að hið gagnstæða eigi sjer stað um alt land. (Gunn. S.: Jeg sagði, að þetta hefði verið gert). Jeg held, að það hafi nú ekki verið á síðustu árum, en fyrir áratugum má vel vera, að nokkuð þess háttar hafi átt sjer stað.

Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að það ætti sjer oft stað, að þurfamenn væru teknir upp úr dvalarhreppi sínum og fluttir sveitarflutningi, ef framfærsluhreppur þeirra heimtaði þá til sín, og þetta væri hin mesta óhæfa. Jeg skal nú fúslega játa, að fyrir þessum hv. þm. (J. B.) vakir mannúðarhugsun sú, að hver maður eigi rjett á að fá að dvelja þar, sem hann vill. En jeg býst við því, að hv. þm. (J. B.) játi þó, að það geti verið skaði fyrir framfærsluhrepp að ala önn fyrir ómögum í öðrum hreppum, sem eru dýrari. Sem dæmi skal jeg nefna, að í Reykjavík dvelur maður, sem er ómagi hrepps úti á landi; nú er miklu dýrara að lifa í Reykjavík en upp til sveita; þess vegna er skaði fyrir hreppinn að halda ómagann í Reykjavík, en flytja hann ekki heim á sveitina.(J. B.: Þá getur hreppurinn borgað ½ eða 1/3 af meðgjöf mannsins). Jeg held, að það sje óvíða, að framfærsluhreppur borgi aðeins 1/3 af meðgjöf ómaga sinna, enda byggist það ekki á neinni lagaheimild, þegar um áradvöl er að ræða.

Svo finn jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en vil endurtaka þakklæti mitt við hæstv. atvrh. (Kl. J.), og skal þegar láta í ljós ánægju mína yfir þeim endurbótum, sem jeg vænti frá honum um þetta efni á næsta þingi, ef honum endist líf og heilsa.

Að síðustu skal jeg taka það fram, að jeg tel enga þörf að skipa nefnd til að rannsaka málið, þegar sá ágætismaður á sæti í stjórninni, sem ekki mun telja eftir sjer þann starfsauka, sem af því leiðir, og ráða því vel til lykta.