11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (2087)

85. mál, endurskoðun fátækralaga

Jón Baldvinsson:

Jeg vildi aðeins leyfa mjer að segja örfá orð um það, sem hv. þm. Barð. (H. K.) sagði um fátækraflutning.

Jeg lít svo á það mál, að þessi fátækraflutningur eigi alls ekki að eiga sjer stað. Hitt má vera, sem hv. þm. (H. K.) sagði, að þessi flutningur sje ekki ómannúðlegur nú orðið, eða illa farið með þá vesalinga, sem fyrir honum verða enda er það að þakkalausu. En það er engu að síður særandi fyrir þá, sem fyrir þessum flutningi verða, að vera rifnir upp af þeim stöðum, sem þeir kjósa helst að dvelja, og þykir ef til vill vænt um, og fluttir nauðugir í ókunnar sveitir, þó að þeir sjeu fæddir þar.

Hv. þm. Barð. (H. K.) sagði enn fremur, að fátækraflutningur gæti komið sjer vel fyrir þær sveitir, sem ættu fyrir ómögum að sjá á dýrari stöðum en þær væru sjálfar. Það er rjett, að þetta getur orðið dálítið dýrara fyrir sveitirnar. En jeg held, að það mundi þó lagast að miklum mun, ef sveitfestistíminn væri styttur, þannig, að hann yrði 2–3 ár, svo sem hv. þm. Barð. (H. K.) líka mintist á. Jeg held því fram, að hver eigi að fá að vera þar sem hann vill, og geti hann ekki framfleytt sjer sjálfur, á hið opinbera að gera það. Hins vegar eiga þeir að leggja fram vinnu sína, og það á að hjálpa öllum þeim að fá vinnu, sem vilja vinna. En ef þeir vilja ekki vinna, en geta það, eiga þeir ekki mat að fá. Þá gæti jeg fallist á, að hinum ströngu ákvæðum fátækralaganna verði beitt gagnvart þeim.

En jeg stóð aðallega upp til þess að grenslast eftir því hjá hæstv. atvrh. (Kl. J.), hvort hann vildi ekki taka alla liði þál.till. frá 1917 til athugunar í heild sinni, því að mjer heyrðist hv. þm. Barð. (H. K.) leggja aðallega áherslu á 1. lið hennar, en jeg tel hinn ekki síður nauðsynlegan.