15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (2103)

40. mál, hæstiréttur

Frsm. minni hl. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg sje ekki ástæðu til að troða frekar illsakir við hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), úr því hann dró aftur saman seglin. Lasta jeg og ekki, þótt menn tali eigi altaf með silkitungum, enda mun hvorugum okkar hætt við því um of. Jeg fullyrði, að hvergi í nálægum löndum sje slíkt dómarafyrirkomulag, sem hjer er um að ræða, við æðstu rjetti. Það má þó vera, að það sje svipað í Ameríku, en engan hefi jeg heyrt hæla dómstólum þar sem neinni fyrirmynd, enda verðum við að semja löggjöf vora eftir löggjöf þeirra landa, sem við stöndum næst. Jeg ætla að minsta kosti að vænta svo mikils af hv. deild, að hún samþ. þetta ekki án þess að það sje ítarlega rannsakað. Það væri óheyrð endileysa, ef þrem ólöglærðum mönnum tækist að koma slíku frv. sem þessu í gegnum þingið. Enda eru gallarnir á því svo augljósir, að slíkt ætti að vera með öllu óhugsandi. Það er engin ástæða með málstað meiri hl., ekkert sannað með því, þótt Lárus H. Bjarnason tæki við þessu kennarastarfi í bili, því svo stóð á, að enginn annar var undirbúinn að taka við kenslunni, þar sem hann hafði áður verið prófessor í þeim fræðum, og þar að auki samið frv., er samþ. var í fyrra, um sifjalöggjöf. Það er engin sönnun fyrir því, að hjer sje um framtíðarfyrirkomulag að ræða.