13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (2114)

44. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Forsætisráðherra (S. E.):

Mjer kemur það ekki á óvart, þó að jeg fái ekki háa einkunn í fjármálunum hjá háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.); það er engin ný bóla. Jeg man vel, hvernig hann tók á móti mjer sem fjármálaráðherra hjer í þinginu. Jeg lagði þá fram nákvæmari skýrslu en nokkurn tíma hafði verið gefin áður, um allan fjárhag landsins. Háttv. þm. (S. St.) fór þá mjög geyst og heimtaði, að skýrslur mínar væru rannsakaðar af nefnd í þinginu. Lauk þeirri rannsókn svo, að nefndin fjelst alveg á alt, sem jeg hafði haldið fram um fjárhaginn. Jeg er nú orðinn svo vanur við slagorð háttv. þm. (S. St.); þau koma aftur og aftur og ganga frá einni ræðu hans inn í aðra. Það er alt bara hljómur, eintómur hljómur; rökin og tölurnar koma aldrei með. En meðan ekkert er í fjármálaræðum háttv. þm. (S. St.) nema hljómur, þá er ekki hægt að rökræða við hann í alvöru.