01.04.1922
Neðri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (2115)

67. mál, þingfararkaup alþingismanna

Jón Sigurðsson:

Jeg stend ekki upp til þess að andmæla frv. þessu, heldur vegna þess, að hv. flm. (M. P.) dró vissa menn úr fjvn. inn í framsögu sína og gat þess, að frv. væri fram komið vegna þess, að þessir menn hefðu ætlað að svifta það fólk dýrtíðaruppbót, er nyti ólögmæltra eftirlauna í fjárlögunum, en fyrst farið er að draga fram gerðir okkar nefndarmanna, verð jeg að skýra nánar frá því, sem þar gerðist. Ástæðan til þess, að við fluttum þessa brtt., sem komið hefir frv. þessu af stað, var sú, að búið var að fella fyrir okkur í fjvn. tillögu um, í fyrsta lagi að fella niður eftirlaun og eftirlaunauppbætur hjá ýmsum efnamönnum, er engin ástæða var til að veita sjerstök eftirlaun eða uppbætur á þeirra lögboðnu eftirlaun, því nokkrir þeirra hafa auk þess hæstu eftirlaun frá ríkinu. Þegar þetta var felt, bárum við fram till. um að fella niður dýrtíðaruppbótina af þessum launum, en hún náði heldur ekki samþykki í nefndinni; var þá komið kapp í málið, og þess vegna var breytingartill. sú, er flm. (M. P.) gerði að umræðuefni, borin fram, þó við raunar byggjumst eins við, að hún mundi aldrei ná fram að ganga, eins og líka komið er á daginn.

Það var að eins þessi grein, sem jeg vildi gera fyrir afstöðu okkar. Að endingu vil jeg taka það fram, að við, sem að till. stóðum, erum einhuga um að styðja þetta frv., og hafi hv. flm. (M. P.) búist við að gera okkur óleik eða gramt í geði með þessu frv., þá hefir honum algerlega mistekist.