10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

1. mál, fjárlög 1923

Karl Einarsson:

Það gladdi mig að heyra undirtektir háttv. frsm. (H. St.). Hann kvað till. ekki vera tímabæra, þar sem samþykt hefði verið að fá aukna gæslu. En jeg lít nú svo á, að enda þótt hjer væru tvö varðskip í sumar, þá tel jeg þó nauðsynlegt, að stjórnin hefði ráð á fje til að styrkja sýslufjelög til að hafa betra eftirlit en hingað til og vernda síldveiðina. Annars vísa jeg til þess, sem jeg hefi áður sagt um þetta mál. Jeg sje heldur ekki, að svona till. geti verið skaðleg, þótt samþykt væri, því vafalaust notaði stjórnin ekki slíka heimild nema hún sæi, að styrkveitingu þyrfti nauðsynlega og að hún gæti komið að gagni. En það sýndi vilja þingsins, að betra eftirlit eigi að vera en hefir verið. Ávalt hafa heyrst nýjar og nýjar óánægjuraddir innan þingsins um það, hve eftirlitið hefir verið ljelegt. Sjest það meðal annars á því, að til eru lög, sem heimila stjórninni að kaupa skip til strandgæslu. Að hafa gott eftirlit borgar sig bæði beinlínis og óbeinlínis. Menn sjá það ef til vill betur síðar, þegar búið er að eyðileggja fiskimiðin með ágengni og yfirgangi, sem því miður verður þá um seinan. Hvað því viðvíkur, að hæstv. stjórn getur ekki svarað ákveðið fyrirspurninni nú, þá er jafnsjálfsagt og nauðsynlegt að veita henni þessa heimild.