10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Halldór Steinsson):

Þá kem jeg að síðari kafla fjárlaganna, sem byrjar á 15. gr., og skal jeg því fara nokkrum orðum um brtt. nefndarinnar við hann.

Fyrsta brtt. er við 15. gr. 2.c. Þar leggur nefndin til, að bætt sje við 1000 kr. til að ljósmynda og afrita skjöl og heimildir, er varða Ísland í erlendum söfnum. Til þessa starfs hefir undanfarið verið varið nokkru hærri upphæð, en hæstv. fráfarin stjórn tók þetta alls eigi upp í fjárlagafrumvarpið. Þar sem nú fjárveitinganefnd Ed. lítur svo á, að það hafi allmikla þýðingu fyrir vísindin og sögu þessa lands, að starfi þessu sje haldið áfram, telur hún ekki rjett að fella þessa fjárveitingu niður með öllu, heldur að hún verði lægri en áður, eða 1000 kr.

Þá er næsta brtt. nefndarinnar við 15. gr. Þar leggur nefndin til, að styrkur til kaupstaðabókasafna hækki úr 2500 kr. upp í 3000 kr. og ætlast nefndin til, að hækkuninni sje varið til bókasafnsins á Seyðisfirði. Bæjarbúar þar hafa lagt mikla alúð við þetta bókasafn og hafa varið allmiklu fje úr eigin vasa til þess, og hafa nú hækkað fjárframlag sitt upp í 1000 kr.

En nú stendur svo á, að þeir þurfa að láta semja bókaskrá yfir safnið og kaupa skápa. Verður því kostnaðurinn töluvert meiri en hann hefir verið undanfarin ár. Virðist því ekki ósanngjarnt, að þeir sjeu styrktir dálítið í þessu fyrirtæki.

Þá leggur nefndin til, að styrkur til Þjóðvinafjelagsins sje hækkaður úr 750 kr. upp í 1000 kr. Það er enginn efi á því, að þetta fjelag starfar til menningar þjóðinni, og er því eigi rjett að gera mun á því og öðrum samskonar fjelögum. Leggur nefndin því til, að styrkurinn til þess verði jafn styrknum til Listvinafjelagsins, því að henni finst alls eigi geta komið til mála, að hann sje lægri.

21. brtt. nefndarinnar er um að bæta við nýjum lið, til Dansk-islandsk Samfund 1000 kr. Fjelag þetta hefir áður haft dálítinn styrk, og þó að háttv. neðri deild feldi þennan styrk niður, virðist það engin sanngirni, því að fjelagið hefir í seinni tíð unnið mikið að útbreiðslu fræðirita, sem Ísland varða. Á fjelag þetta því skilið, að það sje styrkt af íslensku fje.

Þá kem jeg að 22. brtt. nefndarinnar, og hún er við 15. gr. 16. Þar leggur nefndin til, að komi nýr liður, sem sje 1000 kr. til að gefa út Flóru Íslands.

Eins og kunnugt er, stofnuðu nokkrir vinir Stefáns Stefánssonar skólameistara sjóð til minningar um hann, og er ætlast til, að sjóði þessum verði varið til að útbreiða þekkingu á náttúru Íslands. Til þess nú, að hægt yrði að veita sem fyrst úr sjóði þessum, hefir nokkrum vandamönnum Stefáns sál. dottið í hug að leita samskota til hans en þeim samskotum skyldi aftur varið til að gefa út Flóru Íslands, og ágóðinn af útgáfunni er ætlast til, að renni í sjóðinn. Er gert ráð fyrir, að upplagið verði um 2000, og má búast við að það seljist mjög fljótt upp, þar sem mikill skortur er á kenslubókum í grasafræði.

Það virðist nú mjög vel til fallið, að háttv. Alþingi sýni minningu þessa merkismanns þann sóma að veita dálitla fjárhæð úr ríkissjóði til þessara samskota. Því að það væri eigi nema lítill viðurkenningarvottur fyrir störf hans sem náttúrufræðings, stjórnmálamanns og sem forseta þessarar háttv. deildar.

Nefndin hefir ekki gert breytingu við skálda- og listamannastyrkinn, en telur það víst, að Einari H. Kvaran og Guðmundi Friðjónssyni verði veittur styrkur af þessari upphæð, líkt og áður.

Þá er brtt. við 15. gr. 19. d um styrkinn til Páls Ísólfssonar. Þann styrk hefir nefndin ekki sjeð sjer fært annað en að lækka um helming, en viðurkennir þó manninn og telur hann vel að sjer í sinni ment. Þar sem draga þarf svo mjög úr verklegum framkvæmdum, þá álitum við ekki rjett að meira fje sje veitt til sönglistar.

Þá er brtt. við 15. gr. 24. Nefndin vill lækka um 500 kr. styrkinn til Guðmundar Bárðarsonar, og gerir það svo að samræmi komist á milli Helga Jónssonar og Bjarna Sæmundssonar. Þessir þrír menn eru allir kennarar við fasta skóla, og því eðlilegast að þeim sje öllum gert jafnt undir höfði.

Þá er brtt. við 16. gr. 4. a, um laun garðyrkjustjóra og styrk til garðræktar. Það er álit nefndarinnar, að Búnaðarfjelaginu beri að styrkja slíkt; svo var áður og ólag að svo skuli ekki vera enn þá. Það er í alla staði eðlilegast, að Búnaðarfjelagið hafi þetta með höndum. Nefndin hefir þó ekki sjeð sjer fært að fella burt laun garðyrkjustjóra algerlega að svo stöddu, þar sem maðurinn er að góðu kunnur, heldur hefir hún aðeins lækkað laun hans um 500 kr. og numið burt þessar 500 kr., sem ætlaðar voru sem aukastyrkur til fjelagsins.

Þá er brtt. við 16. gr. 10, um leiðbeiningar um raforkunotkun. Nefndin hefir lagt það til, að þessi liður falli burt. Til þessara leiðbeininga voru árið 1921 veittar 1000 kr. og átti að vera til þess, að rafmagnsfræðingur væri til taks, ef á þyrfti að halda, til þess að fara út um landið og leiðbeina. Þessi upphæð var svo hækkuð á síðasta þingi upp í 10000 kr., en þetta hefir ekkert verið notað og fáir eða fengir sótt um styrk; er ekki heldur von að menn leggi í slík fyrirtæki á þessum erfiðu tímum. Vegna þessa hugði nefndin, að ekki væri skaði skeður, þó að liðurinn væri látinn falla niður fyrir næsta ár.

Hvað viðvíkur styrknum til Gísla gerlafræðings, þá ljet hann það í ljós við nefndina, að hann teldi utanfararstyrkinn eigi nauðsynlegan; aftur á móti teldi hann nauðsyn, að styrkur yrði veittur til rannsóknar á niðursuðu á kjöti og kjötverkun. Sömuleiðis lagði hann áherslu á það, að nauðsynlegt væri að veita eitthvað til umbúða og sölutilrauna á niðursoönu kjöti, og leggur því nefndin til, að til þess sjeu veittar 2000 kr.

Þá er Eyrarbakkabryggjan eða brtt. við 16. gr. 18. Það er í fullu samræmi við sparnaðarviðleitni þingsins, að þessi fjárveiting falli niður. Alstaðar er dregið úr verklegum framförum, og hjer verður að fara á sömu leið. Sýslan er svo illa stæð, að það er ekkert útlit fyrir það, að hún geti lagt fram 1/3 af upphæðinni, og allsendis ófært að ríkið borgi það. Alt öðru máli er að gegna með Ólafsfjarðarbryggjuna, og viðvíkjandi henni hefir nefndin betri heimildir. Samt sem áður hefir nefndin lækkað styrkinn til hennar um 3000 kr. Hjer er um lægri upphæð að ræða og vissa fyrir því, að bryggjan verður bygð með tillögum annarsstaðar frá, ef þessi fjárhæð er veitt.

Þá eru ungmennafjelögin næst. Nefndin leggur það til, að styrkurinn til þeirra verði hækkaður upp í 1800 kr. Þau hafa unnið margt þarft verk, og því ekki nema rjettlátur þakklætisvottur, að þau fái þessa fjárupphæð til örfunar.

Þá er engin brtt. við 17., 18., 19. og 20. gr.

Við 21. gr. 4 hefir nefndin bætt nýjum lið um lántöku Árnessýslu. Sýslan skuldar nú ríkissjóði 35 þús. kr. og þarf til vegalagningar í ár lán, sem nemur 12 þús. kr. Þessi lánsheimild er því nauðsynleg, bæði sýslunnar og ríkissjóðs vegna.

Þá er brtt. við 21. gr. 6. Nefndin hefir lagt það til, að liðurinn fjelli niður, en komið með annan nýjan lið í staðinn, en þar sem hún hefir fengið nýjar upplýsingar síðan, tekur hún till. aftur þangað til við 3. umr.

Þá er 25. brtt., við 25. gr. 10, að lánsheimild til Jóns Ísleifssonar falli niður. Meiri hluti nefndarinnar sá sjer ekki fært að veita þessa lánsheimild og taldi ekki líkur til þess, að þetta byggingarfyrirkomulag kæmi að nokkru verulegu gagni hjer á landi. Aftur á móti bætir nefndin hjer við nýjum lið, þar sem farið er fram á, að Jóni Kristjánssyni nuddlækni verði veitt lán, 20000 kr., til að reisa hús með nuddlækningastofu. Þetta er nauðsyn. Læknisaðferð þessi er óhjákvæmileg og kemur ekki aðeins sjúklingum í Reykjavík, heldur frá ýmsum stöðum á landinu, að notum, og því ófært að læknirinn þurfi að hröklast úr einum stað í annan. Við álítum því sanngjarnt, að hann sje styrktur til þessarar byggingar.

Þá er komið að síðustu brtt., sem er um klæðaverksmiðjur. Nefndin leggur til, að liðurinn sje feldur burtu, vegna þess að hún telur undirbúning þessara stofnana algerlega ónógan. Um klæðaverksmiðjuna á Austurlandi er alls engin kostnaðaráætlun og ekkert ákveðið hvar hún ætti að standa, aðeins nokkur loforð um fjárframlög. Þó má telja undirbúninginn á stofnun klæðaverksmiðju á Suðurlandsundirlendinu margfalt verri. Eða rjettara sagt: þar er alls enginn undirbúningur heima í hjeraði. Þingmenn kjördæmisins taka þetta aðeins upp hjá sjer, og því ekki án frekari upplýsinga og undirbúnings ástæða til að sinna því frekar. Skal jeg svo ekki segja meira að sinni, fyr en þm. hafa talað um brtt. sínar.