10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

1. mál, fjárlög 1923

Karl Einarsson:

Jeg skal ekki tefja umr. lengi. Jeg ætla aðeins að segja það, að jeg get fallist á flestar till. nefndarinnar, og þó að hún hafi ekki tekið upp brtt. mína við 16. gr. 36, þá vona jeg, að hún sje henni ekki fjandsamleg. Vestmannaeyingar hafa ekki legið á liði sínu að leggja fje til þessa þarfa fyrirtækis, og er jeg reiðubúinn að sanna það, að skipið hefir gert ómetanlegt gagn. Nú hefir bæjarstjórn Vestmannaeyja frá því fyrsta lagt til það fje, sem á hefir vantað til rekstrar skipinu.

Árið 1920 var kostnaðurinn yfir 120 þúsund krónur. Nú er óhjákvæmilegt að leggja skipið í þurkví á næsta sumri, og hefi jeg farið fram á það, að þingið veiti stjórninni heimild til að greiða þann kostnað, sem af því leiðir. Hvað hann verður mikill, get jeg ekki sagt — en mjög tilfinnanlegur verður hann ekki.

Væntanlega mætti vinna eitthvað upp í þann kostnað með því að láta skipið flytja vörur á milli. Þyrfti nú ekkert að gera við skipið, heldur aðeins að skoða það, verður kostnaðurinn ekki meiri en 20000 kr. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða um þetta frekar, en vona að háttv. deild samþykki till. mínar.