10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

1. mál, fjárlög 1923

Sigurjón Friðjónsson: Það er ein brtt. á þskj. 207, 35. brtt. við 21. gr. 10, b-liður, sem jeg vildi minnast á með nokkrum orðum, sökum þess að framsögumaður nefndarinnar gat þess ekki, að um hana var ágreiningur í nefndinni. Þessi till. fer fram á það að lána Jóni Kristjánssyni nuddlækni 20000 kr. til húsbyggingar. Brtt. var samþykt í nefndinni með 3:2 atkv., og var jeg annar, sem greiddi atkv. á móti till., og mun því gera svo ennþá; álít jeg órjett, að ríkið láni fje til húsabygginga einstakra manna, sem það er ekki beinlínis skuldbundið á einn nje annan hátt. Ólafsfjarðarbryggjan hefði líka að mínu áliti átt að falla niður eins og Eyrarbakkabryggjan, svo hlutdrægnislaust hefði verið. Tel jeg rjettara að styrkurinn til garðyrkjunnar verði veittur.