10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

1. mál, fjárlög 1923

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Jeg ætla að minnast á örfáar brtt., sem snerta mig, og jeg vona að menn misvirði það ekki, þó að jeg um leið tali um tvær till., sem snerta mig ekki, og tek þær fyrst.

Fyrsta till. er um styrk til Fornbrjefasafnsins. Flm. till; bera það fram, að útgáfa þess heyri undir þjóðskjalavörðinn í embættisnafni, og sjá þess vegna ekki ástæðu til þess að greiða sjerstaklega fyrir það verk. En þetta er misskilningur. Það hvílir engin skylda á þjóðskjalaverði að gefa þetta verk út, eða rjettara sagt annast útgáfu þess Má í því sambandi benda á, að dr. Jón Þorkelsson tók við útgáfunni 1891, en var fyrst skipaður þjóðskjalavörður 1900. Og einn maður getur verið ágætur þjóðskjalavörður, þó að hann sje öldungis ófær til þess að gefa út Fornbrjefasafnið. Og ekki er það sanngjarnt að láta þann mann, sem nú er þjóðskjalavörður, gjalda þess, að hann er fær um að annast hvorttveggja.

Hin brtt. er viðvíkjandi Alþingisbókunum. Sögufjelagið hafði ætlað sjer að hafa lokið því verki 1930, þegar 1000 ár eru liðin frá stofnun Alþingis, en jeg veit ekki hvort það verður unt, því að styrjaldarárin hafa reynst fjelaginu erfið. En ef þessum styrk verður nú kipt í burtu, er óhugsandi að verkinu verði lokið á tilsettum tíma, og verð jeg að telja það mjög óviðfeldið. Jeg vona því, að báðar þessar till. verði feldar.

Þá kem jeg að þeim till., sem heyra undir mig, og verður þá fyrst fyrir mjer till. um að verja búnaðarfjelagastyrknum til verkfærakaupa eingöngu. Háttv. flm. taldi styrkinn til lítils gagns eins og honum væri varið nú, en þar get jeg ekki verið honum sammála. Jeg hefi átt tal við ýmsa menn um þennan styrk, þar á meðal einn helsta bónda þessa lands, og ber þeim öllum saman um, að fáir styrkir hjer á landi mundu koma að meiri notum. Jeg held, að affarasælast reynist að lofa fjelögunum að ráða þessum styrk sjálfum, en setja þeim engar skorður, sem vafalaust yrðu óheppilegar.

Þá hefir háttv. nefnd lagt það til, að laun garðyrkjustjóra verði færð niður. Jeg get verið sammála því, að óeðlilegt sje að tvíborga þetta, en hins vegar er þess að gæta, að embættið er miðað við sjerstakan mann, og á Alþingi upptök að því, og er þá hart að gengið að lækka laun hans. En hitt er annað mál, hvort hægt sje að lækka styrk þann, sem hann nýtur, en veittur er Búnaðarfjelaginu. Um það skal jeg ekki segja, en jeg vildi mælast til þess, að þessi liður fengi að standa óbreyttur.

Þá hefir nefndin lagt til, að niður falli styrkur til leiðbeiningar um notkun raforku, en háttv. 2. þm. Rang. (G. Guðf.) leggur til, að hann verði lækkaður. Hann hefir bent á, að fyrir lægju beiðnir um leiðbeiningar í þessu efni, og er því ekki hyggilegt að fella styrkinn alveg niður. Jeg vil því mæla með till. háttv. þm. (G. Guðf.).

Viðvíkjandi brtt. um Gísla gerlafræðing Guðmundsson hefi jeg ekkert að segja.

Jeg treysti manninum vel og get verið nefndinni þakklátur fyrir það, hve vel hún hefir tekið í það mál.

Það eru hjer fleiri brtt., sem snerta mig, en jeg sje ekki ástæðu til þess að fara nánar út í þær. Viðvíkjandi Eyrarbakkabryggjunni vísa jeg í það, sem sagt hefir verið af háttv. frsm. (H. St.) og mjer um fjárhagsástand Árnessýslu.