10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

1. mál, fjárlög 1923

Sigurður Jónsson:

Jeg læt mjer nægja að hafa fá orð um brtt. að þessu sinni. Jeg hefi oftast fylgt þeirri reglu að styðja þær tillögur, er til sparnaðar hafa miðað, og segi jeg þetta ekki mjer til hróss.

Tvær brtt. hefir þó háttv. fjvn. komið með, sem jeg get ekki felt mig við, enda þótt þær miði að því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Það er að mínu áliti engu síður nauðsynlegt á þessum tímum að framleiða sem mest en að spara, en báðar þessar fjárveitingar, sem háttv. nefnd vill fella niður, miðuðu upphaflega að því að auka framleiðslu í landinu. En svo langt má sparnaðaráhugi manna ekki ganga, að hann nái einnig til þess að spara nauðsynlega framleiðslu. Tillögur þessar eru á þskj. 207, tölul. 30 og 36, og eru um það að fella niður fjárveitingu til Eyrarbakkabryggju og til klæðaverksmiðja hjer á Suðurlandi og á Austfjörðum.

Háttv. frsm. fjvn. (H. St.) nefndi tvær ástæður fyrir fyrra liðnum (Eyrarbakkabryggjunni). Var önnur sú, að draga þarf saman seglin nú við öll fjárframlög, jafnt til verklegra framkvæmda sem annars. Það er slæmt að vera svo staddur fjárhagslega, en eins og á stendur er ekkert við því að segja, þótt eigi sje lagt fram fje til framkvæmda, sem lítinn beinan arð gefa. En hjer er ekki um slíkt að ræða. Á bryggju þessari er hin mesta nauðsyn. Upp frá Eyrarbakka liggur eitt af fólksflestu og frjósömustu hjeruðum landsins, með miklum framtíðarskilyrðum, en slæmar samgöngur hafa þar verið öllum framkvæmdum og framförum mest til hindrunar. Bættar samgöngur mundu því fljótt auka framleiðsluna og verða ríkissjóði bæði beinn og óbeinn gróði. En í þessu efni varðar hitt þó mestu, að sæmileg bryggja á Eyrarbakka myndi vera sjávarútvegi þar, sem er allmikill, til mikillar eflingar, og bryggjan því þegar gefa af sjer beinan arð. Eigi má því heldur gleyma, að bryggja á þessum stað getur í sumum tilfellum bjargað lífi fiskimannanna.

Önnur ástæðan hjá hv. frsm. fjvn. var sú, að Árnessýsla mundi eigi geta lagt fram fje það, sem hún á að leggja á móti, en við því er það að segja, að Eyrbekkingar sjálfir munu ætla sjer að leggja það fje fram að mestu, en treysti þeir sjer ekki til þess, þá er altaf hægt að kippa að sjer hendinni með fjárveitinguna.

Önnur brtt. frá háttv. nefnd var sú, eins og jeg tók fram, að styrkur til klæðaverksmiðjanna falli niður. Hjer er um beina aukna framleiðslu að ræða og þar af leiðandi mikinn sparnað á kaupum frá útlöndum, að því er til álnavöru kemur. Er það landinu lítill búhnykkur að senda ullina óhreina og óunna út úr landinu fyrir gjafverð, eins og verið hefir nú síðastliðið ár, en kaupa í staðinn rándýrt og haldlítið útlent efni. Sjerstaklega er það athugavert nú á tímum, þegar alt er gert, sem mögulegt er, til að koma á skuldajöfnuði við útlönd, og sú viðleitni er uppi að flytja sem minst inn af útlendum varningi. Svo er og, eins og háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) tók fram, ekki víst, að á fje þessu þurfi að halda nú, en gott að hafa það fyrir hendi, ef til þyrfti að taka.

Jeg hygg, að þjóðin mundi meta það sem viturlegustu sparnaðarviðleitni þingsins nú, ef það styrkir sem víðast innlenda framleiðslu.