10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

1. mál, fjárlög 1923

Karl Einarsson:

Menn hafa þá heyrt, hverjum augum háttv. fjvn. lítur á þessar till. mínar. En þó hygg jeg, að verði þessar till. drepnar, eins og háttv. frsm. komst svo vel að orði, þá muni það verða til lítils sparnaðar fyrir landssjóð. Með till. þessum er verið að reyna að koma í veg fyrir það, að útlend fiskiskip veiði í landhelgi og spilli með því fiskimiðum vorum. Það var fullyrt hjer mótmælalaust, að í sumar hafi útlendingar saltað hjer í landhelgi um 50 þús. tunnur án þess að greiða af þeim nokkurn toll. Fúlga sú, sem sje.150 þús. kr., sem við það hefir tapast, hefði fyllilega getað greitt allan kostnað af skipinu. En það er margt fleira, sem tapast, en þetta. Má í því sambandi benda á það, að mörg skip komast hjá því að greiða ýms önnur lögmælt gjöld, svo sem vitagjald, hafnartoll o. fl. hygg jeg því, að eins og eftirlitið var í hitteðfyrra og fyrra, að þá hafi landssjóður lítið grætt á því. Minni jeg á þetta sökum þess, að háttv. frsm. (H. St.) komst inn á þetta.

Af orðalagi háttv. frsm. virtist mjer mega skilja það, að eigi væri útilokað, að Vestmannaeyjar fengju einhverja betri úrlausn en frv. bendir til. Hann hlýtur að sjá það af reikningum þeim, sem fyrir hendi eru, að útgerð skipsins hefir komið hart niður á Vestmannaeyjum, ekki hvað síst síðastliðið ár, þar eð árferði var svo óhagstætt og afurðinar seldust mikið ver en búast mátti við. Jeg vona, að nefndinni sje eigi svo fast í hendi að fella a-lið till. á þskj. 220, því að það verður eigi annað sagt en að hann sje mjög sanngjarn. En jeg skal þá taka aftur b-lið till., þegar jeg hefi heyrt álit nefndarinnar um það hvort hún vilji styðja að því að ríkissjóður taki þátt í kostnaði við þurkví. Annars vona jeg að oss verði gert kleift að halda úti þessu skipi, því að annað væri eigi landi þessu vansalaust. Jeg vænti því, að háttv. deild sjái sjer fært að samþykkja a-lið till., en hina till., b-liðinn, mun jeg taka aftur, er jeg hefi heyrt frá frsm. nefndarinnar.