12.04.1922
Efri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Halldór Steinsson):

Frumvarpið er nú til 3. umræðu eftir tæpra tveggja sólarhringa hvíld. Þegar litið er á afdrif þess við 2. umr. eru þau ekki eins ákjósanleg og nefndin vildi vera láta, en þó jafnvel betri en búast mátti við. Ef frv. er borið saman við það eins og það kom frá háttv. Nd, með 182 þús. kr. tekjuhalla, þá er árangurinn góður, því hjer er hann 91 þús. minni, en ef till. nefndarinnar hefðu verið samþyktar, þá hefði hann aðeins verið 68 þús. kr. Nefndin hefir þó ekki sjeð sjer fært að færa niður útgjöldin nú; það var gengið eins langt í því við 2. umr. eins og frekast var unt, en í stað þess kemur hún með 4 till. til hækkunar, sem eru smávægilegar, en gleymst höfðu í sparnaðaráhuganum.

Við 14. gr. er brtt. um dýrtíðaruppbót dyravarðar háskólans, og verður ekki annað sagt en að sá maður verði hart úti, samanborið við aðra samskonar menn. Hann var ekki tekinn upp í launalögin, og hefir dýrtíðaruppbót hans því orðið mjög af handahófi. Ritari háskólans hefir 1000 kr. laun og 700 kr. uppbót, dyravörður hefir einnig aðeins 700 kr. uppbót, en 1600 kr. laun. Allir sjá að ósamræmi er í þessu, og úr því vill nefndin bæta.

Þá vill nefndin hækka liðinn til samningar handritaskrár um 600 kr. Sá maður, sem hafði þann starfa á hendi, er nú kominn í fast embætti, en engu að síður hefir hann þó haldið áfram fyrri starfanum án þess að setja neitt upp. Honum ber vitanlega engin skylda til þess, og er því ekki ósanngjarnt, þó að honum sje veitt þetta fje. Nefndin gerir ráð fyrir, að útgáfukostnaður fari ekki fram úr 2 þús. kr., og verða þá 1000 kr. til mannsins.

Þá er brtt. um að hækka styrk til Leikfjelagsins úr 2 þús. kr. í 3 þús. kr. Lækkun þessa styrks hefir legið í því, að þær sögur hafa gengið, að Leikfjelagið væri hætt að leika, en svo er ekki. Leikfjelagið hefir haft mentandi og göfgandi áhrif, og væri illa farið, ef það þyrfti að leggjast niður. Það má þá búast við, að lítt æfðir leikflokkar rísi upp, sem ekki hafa eins góð skilyrði til þess að sýna góðan leik. Nefndin vill því hækka þennan styrk, þó að hún geti ekki gengið eins langt og hv. þm. Vestm.(K.E.), sem á hjer aðra brtt. Það verður að gæta að því, að á öllum sviðum er dregið af, og Leikfjelagið verður með þessu móti ekki harðara úti en aðrir. Jeg vona því, að það geti sætt sig við till. nefndarinnar.

Þá er síðasta brtt. nefndarinnar um það, að sú upphæð, sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum, að veita skuli ræktunar- eða búnaðarfjelögum að láni til þess að kaupa þúfnasljettara, verði hækkuð úr 35 þús. kr. upp í 70 þús., svo hægt sje að kaupa 2 í stað eins. Nefndin álítur, að eftir þeirri reynslu, sem nú þegar er orðin af vjelum þessum, geti þær í framtíðinni orðið lyftistöng fyrir landbúnaðinn og að því fje sje vel varið, sem til þeirra sje veitt.

Þá ætla jeg lítilsháttar að minnast á brtt. frá einstökum deildarmönnum. Fyrst er brtt. frá háttv. 4. landsk. (G. G.), um að styrkur til augnlæknis Andrjesar Fjeldsteds hækki úr 1500 kr. upp í 2000 og að ferðastyrkur til sama manns hækki úr 500 kr. upp í 700.

Þótt svo virðist í fljótu bragði, að eðlilegast væri, að þeir þrír sjerfræðingar, er fá styrk úr ríkissjóði, gegn því að kenna við háskólann, fengju jafnháan styrk, þá er samt nokkuð öðru máli að gegna með þennan mann. Þá er Björn Ólafsson augnlæknir dó, afsalaði Andrjes Fjeldsted sjer vel launuðu embætti, með það fyrir augum, að ríkið styrkti sig til að halda hjer uppi augnlækningum. Er því alls eigi ósanngjarnt, að styrkurinn verði hækkaður, en í þessu máli hefir nefndin samt alveg óbundnar hendur, og eins með ferðastyrkinn. Þá er till. frá háttv. 2. þm. Rang. (G. Guðf.) við 14. gr. B. VII, um að efnalitlum en efnilegum skólanemendum megi veita undanþágu frá að greiða skólagjald. Eins og jeg hefi áður tekið fram, er það eigi nema sanngjarnt, að fátækum piltum sje eigi meinuð inntaka í skólann, vegna skólagjaldisins, og er nefndin samþykk þessari brtt.

Næst er brtt. frá hv. 4. landsk. (G. G.), að hækka utanfararstyrk forstöðukonu daufdumbraskólans. Nefndin sýndi þessum lið allan sóma við síðustu umr., en hefir þó um það óbundnar hendur.

Þá er brtt. frá háttv. þm. Vestm. (K. E.) og 2. þm. Rang. (G. Guðf.), um að tvöfalda styrkinn til Leikfjelagsins. Jeg hefi talað um það áður hjer í deildinni og vísa til þess.

Næst eru 2 till. frá háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.). Um fyrri till. er það eitt að segja, að nefndin telur hr. Þórarin Guðmundsson alls góðs maklegan, og einnig mjög æskilegt, að sá maður veiti tilsögn í fiðluspili, þar sem enginn mun honum færari í þeirri list hjer. Vill því nefndin leyfa sjer að mæla með þessari till.

Önnur till. frá sama þm. er að veita Goodtemplarafjelaginu 5000 kr. styrk, eða til vara 3000. Nefndin getur eigi verið meðmælt þessum till., enda þótt hún vilji eigi á neinn hátt amast við starfsemi Goodtemplarareglunnar. Hún hefir tvímælalaust gert hjer mikið gagn, sjerstaklega áður en bannlögin gengu í gildi. Síðan hefir hún mest gengið út á það að vernda bannlögin, sem í sjálfu sjer er aldrei hægt að vernda, svo að nokkru gagni komi. Meira vinst með því að leiða mönnum fyrir sjónir, hvílíkt böl áfengið getur leitt yfir menn, heldur en að ætla sjer að útrýma því með köldum boðorðum og lagasetningum, engu síður en það er göfugra að fá þjóf til að hætta að stela með því að sýna honum fram á, hve spillandi áhrif verknaðurinn hafi á hann sjálfan, en að ógna honum með tugthúsinu. Eins og bindindisstarfsemin var hjer áður, var mjög tilhlýðilegt að ríkið styrkti hana, en eins og nú er ástatt, þar sem vafi leikur á, hvort bannlögin verða rýmkuð eða ekki, er minni ástæða til að fara að veita fje til hennar. Þar við bætist einnig, að styrkbeiðni þessi er komin frá einstökum þm., án þess að sjeð verði, að almennur vilji Goodtemplara sje á bak við. Að öllu þessu athuguðu sá meiri hluti nefndarinnar sjer eigi fært að styðja þessa till.

Um 9. till., frá háttv. 2. þm. Rang. (G. Guðf.), um styrk til Haralds Guðmundssonar, get jeg verið fáorður. Nefndin sá sjer eigi fært að mæla með henni.

Þá er að lokum brtt. frá háttv. þm. Vestm. (K. E.) um hækkun á styrknum til Þórs. Jeg hefi áður lýst afstöðu nefndarinnar til þessa máls, og læt mjer nægja að taka það fram, að meiri hluti nefndarinnar sá sjer eigi fært að styðja þessa till. Aftur á móti er nefndin meðmælt öðrum liðnum, um fjárveitinguna til Vestmannaeyjakaupstaðar til aukningar rafveitunni, enda er hjer aðeins um endurveitingu að ræða.

Mun jeg svo ekki fara fleiri orðum um brtt. að svo stöddu.