12.04.1922
Efri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

1. mál, fjárlög 1923

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Það er aðeins ein brtt. sem snertir mig, og jeg get því verið stuttorður. Það er síðasta till. á þskj. 242, XI. liður, frá fjvn.

Þegar þessi grein var til umr. í háttv. Nd., benti jeg á, að 35 þús. kr. væri of lítil upphæð til þess að kaupa sljettil fyrir. Vjelin kostar sem sje 35 þús. sænskar kr. eða um 60–70 þús. íslenskar krónur. Þetta hefir háttv. fjvn. sjeð, og því komið með brtt. um að hækka lánsheimildina. Þakka jeg háttv. nefnd fyrir það. Um aðrar brtt. þarf jeg eigi að ræða. En það eru tvö atriði, sem jeg vildi minnast á, um sölu og kaup á skipum. Það er þá fyrst, hvort selja beri Borg. Það er komið tilboð í skipið, að vísu miklu lægra en það er bókfært fyrir, en það er aðgætandi, að ekkert hefir verið afskrifað fyrir fyrningu undanfarin ár, svo bókfært verð er ekkert að marka, og hinsvegar á að „klassificera“ hana næsta ár, og mun því þurfa að kosta miklu fje til hennar áður. Væri mjög æskilegt fyrir stjórnina að vita afstöðu háttv. deildar og fjvn. til þessa máls. Vona jeg að háttv. frsm. fjvn. gefi mjer einhverjar upplýsingar hjer að lútandi.

Sjái samgnm. og fjvn. sjer eigi fært að svara þessu, verð jeg að líta svo á, að þær sjeu eigi sammála um sölu skipsins.

Þá er hitt atriðið, hvort kaupa eigi skip. Vitamálastjóri þarf skip til þess að nota, er á þarf að halda. Ennfremur hefir landssímastjóri oft þurft að leigja skip til eftirlitsferða. Þeir hafa því farið fram á að kaupa skip til afnota í þeirra þarfir, og hafa þeir fengið 2 tilboð um skip. Annað þeirra er nú selt, en hitt á að kosta 65 þús. kr. Upp í þetta eru til 20 þús. fyrir bát, sem seldur hefir verið. Það er mjög svo áríðandi fyrir stjórnina að vita af eða á um þetta mál sem allra fyrst, sem sje hvort að kaupunum eigi að ganga eða eigi.

Þá kem jeg að einu atriði enn, sem jeg þyrfti að fara fáeinum orðum um. Formaður Fiskifjelagsins hitti mig að máli og bað mig að spyrjast fyrir um, hvort eigi væri fáanlegt að nota upphæðina í 16. gr. 14, um að rannsaka erlendan fiskimarkað, til þess að senda sýnishorn út um heim og vita, hverjar tegundir sjeu helst seljanlegar á hverjum stað. Stjórnin gaf formanni Fiskifjelagsins ekkert ákveðið svar, enda hafði hún eigi getað borið sig saman um málið. Þetta erindi hans hefi jeg nú borið hjer fram, og þætti vænt um, ef háttv. frsm. gæti svarað því einhverju.