19.04.1922
Neðri deild: 50. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Mjer skilst svo, sem háttv. þm. rísi nú upp hver á fætur öðrum og vitni um sparsemi þessa þings af því, að þeir telji hana landinu til hags og sóma. En mönnum missýnist heldur hrapallega í þessu efni. Þessi grútarlegi nurlaraháttur þingsins verður landinu óumflýjanlega til skaða og vanvirðu. Sú fjármálastefna, sem aðallega hefir einkent þetta þing, er þessi gamla og góðkunna, að spara eyrinn en kasta krónunni. — Það er engin eyðsla að veita fátækum manni nokkrar krónur og margfalda með því starfsmöguleika hans og afkomendanna. Það er ekki eyðsla, þó fáeinum þúsundum sje varið til þess að auka orðstír þjóðarinnar hjá öðrum þjóðum og vekja athygli þeirra á henni — jafnmikinn og margskonar hagnað, sem slíkt hefir og getur haft í för með sjer. Það er enginn sparnaður að spara örlítinn símaspotta, ef með því er heftur framgangur gróðavænlegs framleiðslufyrirtækis. — Menn mega yfirleitt ekki halda, að þeir geti miklast af því að fara mjög gálauslega með jafnágætt orð sem sparnað. Sparnaður er ekki morð á sonum og dætrum einnar þjóðar, heiðri hennar nje öðru, sem hún á dýrmætast til, heldur að spara það, sem óþarft er eða án verður verið. Þetta sjeu þá kveðjuorð mín til sparnaðarnefndar þingsins.