03.03.1922
Efri deild: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

38. mál, sérstakar dómþinghár

Sigurður Jónsson:

Jeg bið um orðið vegna brtt. á þskj. 47, sem fer fram á sjerstakar dómþinghár fyrir Ljósavatns- og Bárðdælahreppa.

Þegar hinum forna Ljósavatnshreppi var skift, árið 1907, var engin breyting gerð á dómþinghánni, sem þó hefir verið hin mesta þörf. Frammi í lestrarsalnum liggur nú erindi frá hreppsnefnd Ljósavatnshrepps, þar sem þess er óskað, að hreppurinn verði sjerstök dómþinghá, og eru þar færðar fram ýmsar ástæður fyrir nauðsyninni á framgangi þess máls, og get jeg að mestu leyti látið mjer nægja að vísa til þeirra ástæðna, máli þessu til skýringar.

Við flm. tillögunnar á þskj. 47 álitum einfaldara að koma þessu máli á framfæri í sambandi við frumvarp það, sem hjer liggur fyrir frá háttv. Nd., heldur en að koma fram með sjerstakt frv. um málið, þó frv. þurfi þá að ganga aftur til Nd., væntanlega þó aðeins til einnar umræðu.

Jeg er talsvert kunnugur staðháttum í þeim hreppum í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum, sem frv. ræðir um, og tel fulla þörf á því, að þar verði látið fara saman hreppur og dómþinghá. En á þessu er þó enn meiri þörf í hinum forna Ljósavatnshreppi, sem á undan skiftingunni var víst lengsti hreppurinn á landinu.

Vonum við flutningsmenn, að hv. deild samþykki breytingartillögur okkar og greiði fyrir framgangi málsins í þeirri mynd.