17.02.1922
Neðri deild: 3. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

13. mál, lækkun á aðflutningsgjaldi af kolum

Fjármálaráðherra (M. G.):

Þetta frv. er samhljóða bráðabirgðalögum, sem út voru gefin af Hans Hátign konunginum, eftir tillögu minni, hinn 16. nóv. f. á., og er lagt fyrir Alþingi samkvæmt 23. gr. stjórnarskrárinnar, til samþyktar eða synjunar.

Í ástæðunum fyrir frv. er getið hvað olli útgáfu þessara bráðabirgðalaga, og hefi jeg ekki öðru þar við að bæta en því, að stjórnin sá sjer ekki fært annað en slaka á klónni um skatt af kolum og salti vegna útgerðarinnar, en gerði það þó með því beina skilyrði, að botnvörpungarnir færu til veiða, og gaf lögin ekki út fyr en samkomulagi var náð milli útgerðarmanna annarsvegar og háseta og stýrimanna hinsvegar. Þessi bráðabirgðalög eru því fórn, sem ríkissjóður varð að færa til þess að losa botnvörpuskipin frá hafnargarðinum, þar sem þau höfðu legið aðgerðalaus um lengri tíma. Jeg segi þó ekki, að þau hefðu ef til vill ekki lagt út, þótt lög þessi hefðu ekki komið, en jeg er ekki í efa um, að þau flýttu fyrir brottför þeirra á veiðar.

Þótt mál þetta sje ekki umfangsmikið, er líklega rjettast að vísa því til nefndar; í fjárhagsnefnd á það heima, og legg jeg því til, að því verði þangað vísað, þegar þessi umræða er á enda.