06.03.1922
Neðri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

13. mál, lækkun á aðflutningsgjaldi af kolum

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg hefi í raun og veru litlu við það að bæta, sem sagt er í nefndarálitinu, og málið er svo ljóst, að jeg vænti að hv. deild muni auðveldlega skilja það. Þó að um margt sje deilt innan þessara veggja, munu flestir vera á eitt sáttir um það, að hyrningarsteinninn undir almennri velmegun þessa lands sje framleiðsla þess og að fjárhagsleg viðreisn þess sje fyrst og fremst komin undir því, að hún haldist í horfinu og helst að hún aukist sem mest.

Það hefir og oft verið um það talað, að ekki mætti skatta framleiðsluna, þótt erfitt hafi reynst að komast hjá því. Á síðari árum hefir verið stefnt að þessu með því að afnema útflutningsgjöldin, og á síðasta þingi var felt úr gildi útflutningsgjaldið gamla, en 1% gjaldið (sem áður var stimpilgjald) af útfluttum vörum framlengt aðeins til bráðabirgða. Og þessi stefna er rjett.

En ef það er rangt að leggja útflutningstolla á afurðir landsins, er hitt þó enn skaðlegra, að leggja háa innflutningstolla á aðfluttar vörur, sem nauðsynlegar eru til framleiðslunnar, svo sem kol og salt, því útflutningurinn fer eftir velgengni atvinnuveganna, en kol og salt eru keypt jafnt hvort framleiðslan er mikil eða ekki.

En nú vill svo vel til með þessi gjöld, að þau eru ekki í flokki venjulegra álaga, heldur aðeins bráðabirgðagjald, sem lagt var á í þeim sjerstaka tilgangi að vinna upp tap Landsverslunarinnar, er stafaði af verðfalli á þessum vörutegundum í lok ófriðarins, og var ákveðið, að það skyldi falla niður þegar þetta tap væri upp unnið, þó svo, að það skyldi haldast til næstu áramóta eftir það. Eins og sýnt er fram á í nefndarálitinu, er enginn efi á því, að tapið af saltkaupunum hefir þegar verið unnið upp, er stjórnin lækkaði aðflutningsgjaldið á salti í nóvember. Það gjald átti því tvímælalaust að falla burt um síðustu áramót. Hjer getur því í raun og veru ekki komið annað til greina en það, hvort víta beri stjórnina fyrir það, að hún lækkaði gjaldið fyrir áramót, eða fyrir það, að hún ljet það ekki með öllu falla við áramótin.

Nefndin er öll sammála um það, að það hafi verið rjett af stjórninni að hlaupa undir bagga með útgerðinni með þessu, og jeg og fleiri nefndarmenn hefðum kunnað henni þakkir, ef hún hefði numið það úr gildi með öllu.

Hv. þingmönnum er kunnugt um það, af ræðu hæstv. fjármálaráðherra (M. G.), hvernig stóð á þegar þessi ráðstöfun var gerð. Þá stóðu yfir samningar milli útgerðarmanna botnvörpuskipanna og sjómanna um kaupgjald á haust og vetrarvertíð, og lá við sjálft, að skipin yrðu ekki gerð út á ísfiski vetrarmánuðina, en hinsvegar yfirvofandi neyð hjer í Reykjavík, sem ekki hefði orðið afstýrt með öðru móti, þó alls hefði verið neitt annars til að bæta úr því. Það mun nú vera komið í ljós, að ekki hefði veitt af, að alt aðflutningsgjald af kolum og salti hefði verið afnumið til þess að útgerðin bæri sig. En þar sem nefndin hafði orð stjórnarinnar fyrir því, að útgerðarmenn hefðu látið sjer lynda þá lækkun, sem gerð var á aðflutningsgjaldinu, og alls ekki vænst meira, hefir hún ekki sjeð sjer fært að fara lengra í þá átt í tillögum sínum. Að rjettu lagi ætti að endurgreiða helming aðflutningsgjalds af því salti, sem flutt hefir verið inn síðan um áramót. Nefndin hefir þó ekki viljað leggja það til, og hyggjum við, að allir hlutaðeigendur muni sætta sig við það, að gjaldið haldist óbreytt til næstu mánaðamóta, einkum þegar þess er gætt, hve mikilsverð lækkun salttollsins er.

Um kolatollinn er nokkuð öðru máli að gegna, því samkvæmt lögunum hefði hann átt að standa óbreyttur til næstu áramóta, því tapið af kolakaupum landsins hefir ekki verið upp unnið um síðustu áramót. Ef gjaldið hefði verið óbreytt, 10 krónur af hverri smálest, hefði tapið sennilega verið unnið upp snemma á árinu, ef innflutningurinn hefði eigi minkað; hefði þá ríkissjóður þannig grætt eigi litla upphæð. En þetta gjald var ekki lagt á kolin í gróðaskyni fyrir ríkissjóð, heldur aðeins til þess að vinna upp tap; og það ákvæði skoðar nefndin óbreytt, að gjaldið skuli verða upphafið fyrir fult og alt um næstu áramót eftir að tapið er upp unnið, eins þó að það hafi verið lækkað. Árið 1920 voru fluttar inn 42 þúsund smálestir af kolum, og er aðflutningsgjaldið af því 420 þúsund krónur; en árið 1921 fluttist til Reykjavíkur og nokkurra annara lögsagnarumdæma, sem skýrslur eru komnar frá, um 35 þúsund smálestir, og þegar litið er á það, hvaðan skýrslur vantar, má telja efalaust, að innflutningurinn hafi eigi verið minni það ár. Bæði árin 1920 og 1921 hafa því verið fluttar inn um 84 þúsund smálestir, og hefir gjaldið af þeim orðið um 840 þúsund krónur. Tap það, sem hjer átti að vinna upp, nam tæpri miljón króna; alls eru þá eftir um 160 þúsundir króna. Ef gert er ráð fyrir líkum innflutningi 1922, fást með 5 króna tollinum um 200 þúsund krónur, og er þá auðsætt, að tapið vinst upp, og þó nokkru betur, á árinu, þrátt fyrir lækkunina. Það er nú hugsanlegt, að innflutningur kola minki á árinu 1922, en ástæðan til þess getur aðeins verið sú, að útgerðin minki, en það sýnir aftur, að hún hafi ekki borgað sig eða þoli ekki tilkostnaðinn. Hljóta því allir að vera sammála mjer um það, að betra væri að ljetta alveg af henni þessum tolli en halda lengra í þá átt, og tel jeg víst, að stjórnin mundi ekki verða ákærð þá, þótt hún upphefði hann, ef vandræði væru annars óumflýjanleg.

Af öllum þeim ástæðum, sem jeg hefi nú talið, vænti jeg að háttv. þingd. geti fallist á frv. eins og það kemur frá nefndinni, því eins og jeg hefi tekið fram, eru breytingar þessar litlar frá því sem stjórnin hafði ætlast til — og í raun og veru aðeins orðabreytingar, því samkvæmt lögunum frá l919 átti gjaldhækkunin að falla úr gildi um áramót.

Um till. háttv. samþm. míns (J. Þ.) get jeg verið fáorður. Nefndin hefir ekki haft tíma til þess að bera sig saman um hana. En hvað sjálfan mig snertir, þá lít jeg hýru auga til hennar og tel fremur til bóta, að hún nái fram að ganga.