06.03.1922
Neðri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

13. mál, lækkun á aðflutningsgjaldi af kolum

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg get ekki neitað því, að mjer komu mjög á óvart ummæli hæstv. fjrh. (M. G.). Mjer hafði skilist svo á samtali við hann nýlega, að hann gæti vel greitt atkvæði með breytingum nefndarinnar, að minsta kosti á salttollinum. Það hefir kannske átt að skilja hann svo, að hann gæti ekki fallist á kolatollinn, en þá verð jeg að taka það fram, að um kolin er sama að segja og saltið. Þar sem hann segir að vörutollur hafi altaf átt að greiðast af salti og kolum, þá er það hreinn og beinn misskilningur. Lögin taka það skýrt fram, að vörutollur eigi að falla niður á meðan verið sje að vinna upp tapið. Það er meiningarlaust að taka svo til orða, „að vörutollur falli niður“, ef hann ætti að greiðast eða vera innifalinn í gjaldinu. Annars hefði legið nær að orða það svo, að auk vörutolls ætti að greiða svo og svo hátt gjald.

En um salttapið er þá það að segja, að það var upp unnið um áramót, jafnvel þó að vörutollinn bæri að draga frá, eins og jeg skal þegar sanna. Salttapið var 500 þúsund krónur, og með tollinum hafa náðst inn fullar 600 þús. krónur; á að giska 614 þús. Ef við drögur frá vörutollinn, þá nemur hann þó aðeins 77 þúsund krónum af öllum innflutningnum, og þó að þar sje bætt við vöxtum, þá geta þeir aldrei numið meiru en 30–40 þús. krónum, svo að upphæðin, sem til frádráttar kemur, verður ekki nema rúmar 100 þús. kr., og því fyllilega fyrir tapinu eftir. Þar við bætist svo 3 króna gjald af saltinu í heilan ársfjórðung. Þess vegna held jeg að ekki sje ofsagt, þó gert sje ráð fyrir að salttapið sje upp unnið, hvernig sem á málið er litið.

En hinsvegar vil jeg undirstrika það, sem jeg sagði áður, að vörutoll átti alls ekki að draga frá, heldur átti hann að falla niður á meðan verið var að vinna upp salttapið, og er því nú búið að greiða alllaglega upphæð umfram.

Um kolin skal það játað, að ekki er alveg sama máli að gegna. Um áramót hefir verið búið að greiða upp í tapið á þeim 840 þús. krónur og á þessu ári er gert ráð fyrir, að við bætist 200 þús. krónur, en það verður samtals 1040 þús. krónur. Upphaflega nam kolatapið 988 þús. krónum. Vexti af því má áætla um 80 þús. kr., og vantar þá tæpar 30 þús. krónur. Finst mjer þá ekki ósanngjarnt, þó að saltið verði látið bæta upp þann halla, úr því að þar er um umframgreiðslu að ræða. Alt tapið með vöxtum verður þá upp unnið um næstu áramót, og samkvæmt ótvíræðum ákvæðum laganna á gjaldið þá að falla niður.

Þess vegna eru brtt. nefndarinnar í raun og veru aðeins til skýringa, til að taka af allan vafa um þetta. Og það er ekki til neins fyrir neina stjórn að ætla sjer að halda því til streitu, að lögin verði í gildi eftir næstu áramót. Þau verða þá búin að vinna það, sem þeim var ætlað, og hljóta að falla niður, og mundi hver dómstóll dæma svo, ef til kæmi.