06.03.1922
Neðri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

13. mál, lækkun á aðflutningsgjaldi af kolum

Fjármálaráðherra (M. G.):

Ef það er rjett, að salttapið hafi verið upp unnið um síðustu áramót og kolatapið verði að fullu greitt um næstu áramót, það liggur í augum uppi, að um þetta þarf ekki að deila. En það er einmitt þetta, sem jeg dreg mjög í efa, og byggi það á því, sem jeg sagði áðan, að það var altaf meiningin, að vörutollurinn hjeldist. Og eins og háttv. frsm. (Jak. M.) reiknaði út, þá er það beinn halli, ef vörutollurinn er dreginn frá. Vitanlega getur ríkissjóður gefið þetta eftir, en hann getur það ekki öðruvísi en að bíða halla við.

Háttv. frsm. (Jak. M.) var ekki á þingi 1919, og veit því ekkert um hvað kom fram í umr. Það vill nú svo til, að jeg hefi hjer fyrir framan mig umr. um þetta mál 1919 og sje, að þáverandi fjármálaráðherra (S. E.) hefir einmitt haldið fram þeim sama skilningi á lögunum og jeg geri.

Þess vegna liggur það í hlutarins eðli, að ómögulegt er að segja, og því síður að fullyrða, að hallinn sje enginn, ef ríkissjóður missir bæði kola- og salttoll eins og hann var upphaflega. Þetta er því alt saman líkindareikningur frá upphafi til enda hjá háttv. frsm. (Jak. M.) og ekkert annað.

Jeg man, að 1919 var talað um að hafa ekki tvo tolla; það myndi mælast betur fyrir að hafa hann aðeins einn, en þar með var það ekki sagt, að hinn upphaflegi vörutollur ætti að falla niður.