06.03.1922
Neðri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

13. mál, lækkun á aðflutningsgjaldi af kolum

Jón Þorláksson:

Jeg ætla aðeins að minnast á breytingar nefndarinnar í sambandi við það, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði.

Jeg held að óheppilegt sje að fylgja lögunum frá 1919, og tel því betra að hafa ákveðið tímatakmark eins og nefndin fer fram á. Eftir lögunum frá 1919 verður það ekki vitað fyr en löngu eftir á, máske á miðju ári, hvort t. d. salttapið hefir verið upp unnið á undanförnum áramótum. Ef svo er farið að endurborga toll, greiddan eftir áramót, svo löngu eftir á, þá rennur endurgreiðslan sem gróði í vasainnflytjendanna, en kemur ekki sjávarútveginum til góða. Þess vegna er mikil bót að því að ákveða, að aukatollurinn skuli falla niður á tilteknum tíma.

Jeg er sammála háttv. frsm. (Jak. M.) um það, að vörutollurinn fjell niður með lögunum 1919, og hefir því legið niðri á meðan verið var að vinna upp tapið.

Þessi ráðstöfun var upphaflega gerð án þess að stærstu notendur kola og salts væru spurðir um. Þess vegna er sanngjarnt að veita þeim nokkra ívilnun, og aðrir landsmenn látnir borga líka. Það verður að skoðast sem órjettlæti að láta útgerðarmenn botnvörpunga greiða mestalt tapið.