06.03.1922
Neðri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

13. mál, lækkun á aðflutningsgjaldi af kolum

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vil staðfesta þau ummæli háttv. frsm. (Jak. M.), að nefndin hefir af fyrirliggjandi skjölum og skýrslum fullvissað sig um, að salttapið var upp unnið þegar um síðustu áramót.

Ennfremur verð jeg að halda fast við þá brtt. nefndarinnar, að kolatollurinn falli niður um mestu áramót, enda getur nefndin ekki annað sjeð en að þá verði kolatap ríkissjóðs frá árunum 1918 og 1919 unnið upp.

Hæstv. fjrh. (M. G.) heldur því fram, að tollurinn falli niður af sjálfu sjer þegar stjórnin sjer, að tapið er unnið upp.

Reynslan hefir nú ekki staðfest þetta að því er salttollinn snertir, enda getur talsverður tími liðið frá því er tollurinn á að falla úr gildi og þar til stjórnin fær skýrslu um innflutninginn, en þá fyrst er stjórnin fær innflutningsskýrslur, sem sanna að tapið er unnið upp, fellir hún tolllögin úr gildi. Gæti því svo farið, að innheimtur yrði tollur í heilan ársfjórðung fram yfir það, sem þyrfti til að fullnægja lögunum.