16.03.1922
Efri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

13. mál, lækkun á aðflutningsgjaldi af kolum

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg þarf ekki að bæta miklu við hið ítarlega nál. á þskj. 106. Eins og menn vita var aðflutningsgjald á kolum og salti samþykt á þinginu 1919, til þess að ríkissjóður gæti unnið upp þann halla, sem hann hafði beðið við sölu þessara vörutegunda, en sá halli var um 1 milj. kr. á kolum og um milj. kr. á salti. Þessu átti að ná með 10 kr. aðflutningsgjaldi af smálest af kolum og 8 kr. gjaldi af smálest af salti. Þetta stóð þar til í nóv. að gefin voru út bráðabirgðalög, sem færðu gjaldið niður í 5 kr. af kolum og 3 kr. af salti, og frv. samhlj. þessu var lagt fyrir þingið. Í háttv. Nd. var frv. breytt í þá átt, að gjaldið af kolum fjelli niður um næstu áramót, en gjaldið af salti 31. þ. m., vegna þess, að þá þykir fullvíst, að hallinn sje unninn upp. Nefndin hefir fallist á þetta og telur rjett, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það er nú.