10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

50. mál, jörðin Bakki með Tröllakoti lögð undir Húsavíkurhrepp

Frsm. (Björn Hallsson):

Eins og hv. deild er kunnugt, var mál þetta hjer til meðferðar áður í allshn. í Ed. fór það líka til allsherjarnefndar. Hjer var engin breyting gerð við frv., heldur var það samþykt eins og flutningsmenn lögðu það fyrir þingið. En í Ed. var gerð breyting við 3. grein þess, sem þó er engin efnisbreyting heldur aðeins skýring á orðalagi. Háttv. allshn. Ed. þótti ákvæði frv. ekki nógu ljós í þessu eina atriði og vildi taka af öll tvímæli um það. Þetta atriði var það, að allsherjarnefnd Ed. þótti það ekki koma nógu greinilega fram í frv., að öllum skiftum milli hreppanna út af innlimun Bakka með Tröllakoti í Húsavíkurhrepp eigi að vera lokið með þessari 1600 kr. greiðslu, og jafnframt vitnað til stjórnarráðsbrjefs nr. 72, 4. júní 1912. Símaði nefndin hreppsnefnd Húsavíkurhrepps um þetta og kvað hún svo til ætlast, að öllum skiftum yrði nú lokið.

Allsherjarnefnd taldi frv. sæmilega ljóst orðað, þegar það fór hjeðan frá þessari hv. deild, en vill hinsvegar ganga sem best frá því, og sjer því ekkert við breytinguna að athuga og leggur til, að það verði samþykt óbreytt.