25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

11. mál, skattmat fasteigna

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg hefi litlu við að bæta það, sem stendur í nál. Nefndin er á þeirri skoðun, að rjett sje að skipa þessu mati með sjerstökum lögum, þar sem ekki eru um þetta til áður greinileg ákvæði. Ennfremur telur nefndin rjett, að kostnaður við matið verði sem allra minstur, og getur hún því fallist á, að rjett sje í sveitum að fela matið úttektarmönnum eða tveim mönnum öðrum, sem sýslumaður tilnefnir.

Hinsvegar telur nefndin slíkt fyrirkomulag ekki heppilegt í kaupstöðum, t. d. Reykjavík, þar sem mörg hundruð fasteignir verður að meta á milli þess, sem allsherjarfasteignamat fer fram. Þar kýs nefndin heldur, að hinir lögskipuðu fasteignamatsmenn framkvæmi matið, og telur þá meiri tryggingu fyrir góðu samræmi í matinu yfirleitt. Og þetta teljum vjer því fremur sjálfsagt, að skattmatið ætti síst að þurfa að verða dýrara, þótt það væri framkvæmt af hinum lögskipuðu fasteignamatsnefndum, eins og sýnt er fram á í nál. Mun því tvent vinnast við það að samþykkja brtt. nefndarinnar á þskj. 32, bæði að matið yrði tryggara og einnig að öllum líkindum ódýrara.

Hæstv. fjrh. (M. G.) gat þess við nefndina, að meiningin væri, að sýslumenn útnefndu tvo menn til þess að meta fasteignir í kaupstöðum. En þótt nefndin hafi nú lagt til, að í stað þessara manna komi hin lögskipaða þriggja manna matsnefnd, þá sá hún þó eigi ástæðu til þess að gera till. um fækkun manna í þeirri nefnd, úr því ekkert var með þeirri fækkun unnið fjárhagslega.

Önnur lítilsháttar breyting, sem nefndin hefir leyft sjer að gera, er sú, að einskorða ekki matið utan kaupstaða við úttektarmenn. Er þetta gert af þeirri ástæðu, að nefndin taldi, að úttektarmenn væru ekki ávalt manna hæfastir til þess að meta stór hús eða fasteignir, og væri þá betra að sýslumenn hefðu frjálsar hendur og gætu gengið fram hjá úttektarmönnum og tekið aðra menn, er þeir teldu hæfari. Enda sjálfsagt, að sýslumenn hefðu nokkur ráð um val mannanna, þar sem þeim er falið að sjá um, að matið verði framkvæmt.

Útreikningur nefndarinnar um að undirmatsnefndir virði að jafnaði 3 hús á dag, er ef til vill of lágur. Þeir hafa víða komist yfir meira. Yrði því vafalaust sparnaður að láta fasteignamatsnefndirnar virða fasteignir í kaupstöðum, sem flestallar munu meira en 4 þús. kr. virði, en fyrir mat á slíkum fasteignum eiga virðingarmenn, ef stj.frv. er samþykt óbreytt, að fá 6 kr. hver, en eftir till. nefndarinnar gæti kostnaðurinn aldrei orðið líkt því eins hár.