25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

11. mál, skattmat fasteigna

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg skal þegar taka það fram, að jeg er samþykkur hæstv. fjrh. (M. G.) um það, að matið eigi að ná til allra húsa.

Jeg held enn fast við það, sem jeg hefi áður tekið fram, að miklu rjettara sje, að fasteignamatsnefndirnar framkvæmi matið. En ástæðan til þess, að nefndin hefir ekki komið fram með brtt. í þessa átt að því er sveitir og kauptún snertir, er aðeins sú, að sá kostnaður, sem af því leiddi, mundi eta upp margra ára skatt.

Brtt. okkar nefndarmanna um það, að þeir tveir menn, sem sýslumaður tilnefnir, skuli ekki endilega vera hinir skipuðu úttektarmenn, sýnist mjer að öllu leyti sanngjörn, enda ekki hafa orðið fyrir sjerlega rökstuddum andmælum.

Að vísu skal jeg alls ekki mótmæla því, að margir hreppstjórar sjeu sæmdarmenn. En þó munu í þá stjett veljast menn upp og ofan, ekki síður en í aðrar stöður. Og vafalaust hafa margir þeirra ekki þekkingu á mati stórra bygginga á við t. d. lærða húsagerðarmenn og smiði. Og úr því að sýslumennirnir eiga að bera ábyrgð á framkvæmd skattmatsins, þá sýnist ekki nema sanngjarnt, að þeir hafi frjálsar hendur á það, hverja þeir skipa til þess að meta.