16.03.1922
Efri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

11. mál, skattmat fasteigna

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Eins og háttv. deild sjer, hafði nefndin engar verulegar breytingar að gera við frv. þetta. nefnilega það að meta þyrfti á milli þess að aðalmat fer fram, svo goldinn verði skattur eftir því af nývirkjum.

Þess er getið, að einn nefndarmaður hafi ekki talið eins brýna nauðsyn á að hafa ákvæði um endurmat í þessum lögum, þar sem þau eru í fasteignamatslögunum, og er þar átt við mig. Slíkt endurmat kemur varla til greina. nema jörð verði t. d. fyrir einhverjum verulegum áföllum af skriðum, sjávargangi, eldgosum, hlunnindamissi eða þ. h. Einnig ef stjórnarráðið sæi ástæður til endurmats vegna hækkunar á verðgildi eignanna, t. d. þegar verslunarstaður myndast í landi einhverrar jarðar, síldveiði byrjar með háu lóðargjaldi eða eitthvað slíkt kemur fyrir, sem eykur verulega verðgildi eignarinnar.

Nú má búast við því, að endurmat frá hálfu stjórnarinnar fari sjaldan fram, og alls ekki nema þegar um mjög verulegan verðauka er að ræða. Þar á móti get jeg búist við því, að eigendur fasteigna, sem fyrir einhverjum skemdum verða, þótt ekki sjeu mjög miklar, vilji fá endurmat til þess að fá lækkun á fasteignaskattinum, og ef ekki þarf annað en snúa sjer til hreppstjórans eða úttektarmanna hreppsins, þá þætti mjer ekki ólíklegt, að endurmats yrði óskað án brýnna nauðsynja, og þá þarf að tryggja það í lögunum, að endurmöt verði ekki framkvæmd án allra þarfa. Þessi grunur minn er heldur ekki ástæðulaus um að endurmats verði óskað með litlum ástæðum, því jeg veit dæmi til þeirrar óþolinmæði í þessu efni, að krafist var endurmats löngu áður en síðasta mat gat komið til framkvæmda, og átti það sjer einkum stað um hlunnindajarðir, sem urðu fyrir mikilli rýrnun á hlunnindum sökum óárunar meðan matinu var ekki lokið. Nú var matið byrjað 1916, og eru því 6 ár síðan, og þá fyrst kemur matið í framkvæmd, og nú eru þessi hlunnindi komin í allgott lag aftur á flestum þessum jörðum.

Jeg get líka bent á þær jarðir, sem urðu fyrir skemdum af eldgosinu. Þar var vitanlega farið fram á endurmat, en eftir 1–2 ár er mjer sagt, að slægjur sjeu orðnar jafngóðar, ef ekki betri en áður. Það er ósköp handhægt að þurfa ekki annað en að snúa sjer til hreppstjóra og láta hann endurmeta jörðina, en það er óþægilegra að ónýta það mat síðar.

Nefndin hefir því fallist á till. fyrv. fjármálaráðherra (M. G.) að sækja þyrfti til stjórnarinnar um endurmat og rökstyðja þá beiðni.

Jeg skal geta þess, að gleymst hefir að prenta það, hvar brtt. á þskj. 107 eigi að falla inn í, en það á að vera á eftir 2. gr., og verður þá 3. gr. 4. gr. o. s. frv.

Jeg vil svo óska þess, að háttv. deild sjái sjer fært að samþykkja frv. með þessari brtt.