25.03.1922
Neðri deild: 32. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

59. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Frsm. (Einar Þorgilsson):

Þetta litla frv. fer fram á breyting á bæjarstjórnarlögum Hafnarfjarðar. Breytingin er eingöngu gerð til að koma bæjarstjórnarlögum Hafnarfjarðar í samræmi við sveitarstjórnarlögin og bæjarstjórnarlög Siglufjarðar og Vestmannaeyja. Kemur breytingin aðallega við útsvarsskyldu bæjarbúa.

Háttv. allsherjarnefnd hefir haft málið til meðferðar og ræður til, að það verði samþykt með þeirri einni breytingu á þskj. 141, að aftan við 4. málsgrein frumvarpsgreinarinnar bætist: þó svo, að eigi komi í bága við lög nr. 36, 27. júlí 1921, um samvinnufjelög.

Vona jeg að háttv. deild samþykki frv. með þessari breytingu. Hjer er ekki að ræða um neitt nýmæli, heldur aðeins að koma á samræmi í lögunum.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta meira, en vona að öllum háttv. deildarmönnum sje málið fyllilega ljóst.