06.03.1922
Efri deild: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

23. mál, prestsmata á Grund í Eyjafirði

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Frumvarpinu fylgdi ítarleg greinargerð, sem þm. hafa haft nægilegan tíma til að athuga. Jeg þarf þessvegna ekki að útlista frv., enda tók háttv. flm. (E. Á.) alt það fram, sem nauðsynlegt var, við 1. umr. Það sjest á nál., að nefndin er frv. hlynt. Hún áleit þann ágæta heiðursmann, sem hjer á hlut að máli, maklegan þess að fá þessu framgengt, og sjerstaklega þegar þess er gætt, að Grundarkirkja er að allra dómi ein af allra veglegustu kirkjum landsins. Það er því ljóst, að þinginu ber að hlaupa undir bagga til þess að kirkjan eyðileggist ekki of snemma fyrir tímans tönn.

Þó að nefndinni þætti alt þetta augljóst mál, leitaði hún engu að síður umsagnar biskups, og var hann á sama máli. En hann benti á, að rjettara mundi vera að taka það fram, að fje þetta væri eingöngu ætlað til kirkjuviðhalds, en ekki til þess að greiða skuldir hennar, sem eru ærið miklar. Þetta mun einnig hafa verið meining Magnúsar bónda á Grund, og er því breytingin lega formleg. Kirkjan er stór, en tekjur hennar rýrar, og þess vegna getur skuldin aldrei greiðst með þeim. En nú er eiginlega farið fram á, að ríkið taki að sjer viðhaldið, gegn því að skuldin strikist út. Þetta kann að líta út sem harðdrægni, en þegar betur er að gáð, er þetta aðallega á pappírnum. Kirkjan er vitanlega verðmeiri þegar hún er skuldlaus.

Nefndinni hefir þótt rjett að taka það skýrt fram, að um leið og viðhaldskostnaður yrði samþyktur af þinginu fengi stjórnin kvittun fyrir kirkjuskuldinni, enda var það ekki ætlun Magnúsar bónda að fá þessa skuld til sín greidda, heldur að varðveita kirkjuna frá eyðileggingu. Nefndin leggur þess vegna til, að frv. verði samþykt með þeirri breytingu, sem fram er komin.