22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

23. mál, prestsmata á Grund í Eyjafirði

Hákon Kristófersson:

Jeg finn ástæðu til að þakka frsm. (Þorl. G.) fyrir þau orð hans, að það sje eindregin skoðun nefndarinnar, að allir kirkjueigendur, sem líkt stendur á fyrir, njóti sömu sanngirni og fullnægja á með þessu frumvarpi gagnvart kirkjueiganda þeim, sem hjer er um að ræða. En jeg mundi verða ennþá þakklátari, ef jeg sæi efndirnar, og eftir því, sem frsm. fórust orð, efast jeg ekki um, að skamt verði þeirra að bíða. Jeg álít, að þótt þessi heiðursmaður, sem hjer er um að ræða, sje góðs maklegur, þá beri að unna öðrum þess sama, ef þeir hafa álíka sanngirniskröfu til þess. Háttv. frsm. tók það fram, að svo mætti heita, að þessi maður hefði gefið þjóðinni kirkjuna. Hvernig lítur hann á aðra, sem kirkjur hafa reist af eigin efnum? Jeg skal taka það fram, þótt jeg sje þessu máli fylgjandi, þá er jeg sömu skoðunar og háttv. þm. Borgf. (P. O.), að vel hefði mátt taka það alt í heild og vera búið að koma því í rjett lag fyrir 3. umr. Annars verð jeg að líta svo á, að þessi sanngirni háttv. nefndarmanna sje ekki nema orðin tóm. Úr því þeir líta svo á, að þetta sje rjettlátt, þá býðst þeim nú tækifærið til að sýna það rjettlæti.

Hvað orð háttv. frsm. snertir um það, að sameining safnaðanna nái ekki fram að ganga nema þetta fje verði lagt fram til viðhalds kirkjunni, þá legg jeg ekki mikið upp úr þeim.