18.02.1922
Efri deild: 4. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

6. mál, almenn viðskiptalög

Fjármálaráðherra (M. G.):

Þetta frv. er fram komið til að bæta úr ýmsum misfellum, sem hafa sýnt sig að vera á hinum almennu viðskiftalögum frá 11. júlí 1911. Þegar þau lög voru sett, var tilætlunin, að þau skyldu vera nákvæm þýðing á dönskum lögum um lausafjárkaup frá 1906. En við nána athugun hefir það komið í ljós, að þýðingin er ekki svo góð, sem skyldi, og sumstaðar jafnvel alveg röng. Á einstaka stað er ekki heldur tekið nægilegt tillit til íslenskra laga, sem varla er við að búast, þar sem það var ekki löglærður maður, sem upprunalega þýddi lögin. Úr þessum göllum á frv. þetta að bæta, og er það samið af þeim prófessor lagadeildar, sem kennir þá grein lagavísindanna, 2. borgararjett, sem lög þessi falla undir. Frv. tel jeg að ætti að ganga fram breytingalaust, því að ef gerðar væru á því breytingar, er hætt við, að samræmi það raskist, sem er milli löggjafar Norðurlanda á þessu sviði.

Að lokinni þessari umræðu legg jeg til, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.