01.03.1922
Neðri deild: 11. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

6. mál, almenn viðskiptalög

Fjármálaráðherra (M. G.):

Frv. þetta hefir gengið í gegnum háttv. Ed. breytingarlaust. Vona jeg, að svo muni og um það fara hjer í háttv. deild.

Jeg skal geta þess, að frv. þetta er samið af þeim prófessor háskólans, sem kennir þá grein lagavísindanna, sem efni frv. snertir, og ætti því að mega treysta því fyllilega, að það sje vel úr garði gert.

Í viðskiftalögin frá 1911 hafa slæðst ýmsar þýðingarvillur, og ennfremur hefir þar ekki verið tekið það tillit til íslenskrar sjerlöggjafar, sem skyldi. Úr þessu hvorutveggja hygg jeg að frv. þetta bæti, um leið og það kemur á samræmi við önnur Norðurlönd í viðskiftalöggjöfinni. En það er atriði, sem er mjög mikils virði.

Þetta frv. var í allshn. í háttv. Ed. og vil jeg því leggja til, að því einnig hjer verði vísað til allshn., enda þótt það í raun og veru sýnist óþarft að hafa málið í nefnd.