11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

37. mál, dýraverndun

Jón Sigurðsson:

Hv. framsögumaður (St. St.) hefir gert grein fyrir tillögum nefndarinnar, og vil jeg þá í fám orðum skýra frá breytingartillögu minni. Hún er þess efnis, að burtfalli úr frv. orðin: „og um fuglaveiðar“. Ástæðan fyrir þessari brtt. er í fyrsta lagi sú, að jeg tel tvísýnu á að fara í þessu efni út fyrir húsdýrin, því þá má koma víða við og þannig að til mikils baga yrði. Ef á að fara að setja ákvæði um fuglaveiðar, því þá ekki líka um refadráp? Eða skyldu ekki flestir fallast á, að eiturdauði sje með því kvalafylsta? Sömuleiðis má nefna fiskiveiðar. Það mætti gera það að lögum að hálsskera hvern fisk jafnóðum og hann er innbyrtur, því vitanlega kveljast þeir ekki lítið áður en þeir kafna. Það mætti jafnvel eins banna að veiða á öngul. Það er líka ill meðferð.

Jeg tek þetta aðeins sem dæmi til að sýna, að með þessu er haldið inn á þá braut, sem jeg sje ekki hvar muni enda.

Í þessu frv. er sjerstaklega beinst að okkur Skagfirðingum, en þó að veiðiaðferðin við Drangey sje engan veginn ákjósanleg, er það hyggja mín, að hún sje ekki ómannúðlegri en víða annarsstaðar.

Það er sagt, að í sumum björgum, þar sem sigið er eftir fugli, noti menn móðurástina til þess að ná fuglunum, þannig, að þegar fuglinn liggur á unguðum eggjum eða ungum, er hann svo gæfur, að þeir ná honum og snúa hann úr hálsliðnum. Jeg tel þetta síst betra, því í Drangey er aldrei veiddur annar fugl en geldfugl. Þess vegna helst þar veiðin. Önnur ástæða brtt. er sú, að veiðin í Drangey er mikill atvinnuvegur.

Árlega veiðist við Drangey 60 til 140 þús. fugla, og ef hver fugl er reiknaður á 45 aura, getur háttv. deild reiknað, hvílíkur fengur þar fæst. —

Að því er snertir lýsingar frsm. (St. St.) á Drangeyjarveiði, er það rjett, að fyrir getur komið, að fleki slitni upp, en þá er bandinginn venjulega dauður. Þó hafður sje einn bandingi á hverri niðurstöðu, þá er það enginn illverknaður; einni snöru er brugðið um hvorn væng, og er það því í rauninni litlu meira en þegar ótamið tryppi er bundið eða tjóðrað, sem aldrei hefir komið í tjóður.

Jeg skal fúslega játa það, að mjer væri kært, ef einhver gæti bent á betri veiðiaðferð, en jeg hefi enga trú á því, að þingið sjái betur í þessu efni en alvanir fuglarar og sýslunefnd Skagafjarðarsýslu. En ef þessu ákvæði er haldið í frv., þá ætla jeg að fleiri mundu fylgja, og mundi þá að síðustu mörgum þykja þröngt fyrir dyrum.