11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

37. mál, dýraverndun

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Eins og jeg bjóst við, hefir háttv. flm. brtt. (J. S.) talað á móti frumvarpinu og áliti nefndarinnar, en mjer virðist, að honum hafi ekki tekist að sannfæra menn um það, að ófært mundi að fela stjórninni að semja ákvæði um þessa veiðiaðferð við Drangey, finnist önnur heppilegri.

Jeg tel ekki, að hjer sje of langt gengið meðan ekki eru sett ákvæði, sem hindra að neinu verulegu veiðina, enda er það engin sönnun, að svo færi, þótt önnur aðferð yrði tekin upp.

Mjer virtist háttv. flm. brtt. fallast á, að þessi aðferð væri ekki æskileg, ef annars væri kostur, en það tókst honum ekki að sanna, að svo væri ekki. Jeg tel það aftur á móti alls ekki óhugsandi, að aðra aðferð mætti viðhafa, jafnfengsæla og að mun mannúðlegri. Hann óttaðist og virtist kvíða fyrir, hvar staðar næmi, ef haldið væri inn á þessa braut, sem frv. bendir til; en nefndin lítur þannig á, að æskilegast væri, að komist yrði sem lengst í mannúðaráttina við aflífun hverrar skepnu, og telur mikilsvert, hvað lítið sem ávinst í þá átt.

Þessi veiðiaðferð við Drangey er alls ekki betri fyrir það, þó að önnur sje til verri eða álíka, eins og flm. brtt. gaf í skyn, t. d. sú, að farga fugli frá lifandi ungum. Sá veiðiskapur sýnir svo mikið hugsunarleysi og harðýðgi, að það væri óneitanlega mjög mikill siðmennilegur vinningur, fengist á því gagngerð breyting.

Sama er að segja um eitrun fyrir refi. Sje unt að finna þar einhverja mannúðlegri veiðiaðferð, þá væri það góðra gjalda vert. Það er því engin sönnun í þessu hjá háttv. þm. (J. S.) eða fundin ástæða til þess að vera á móti frv. Það er sama hvaða dæmi er tekið um veiðar, ef betri aðferð finst, er sjálfsagt að taka hana upp.

Háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) gat þess ennfremur, að þing og stjórn mundu ekki hafa meira vit á, hvernig veiða ætti fugl, en Skagfirðingar. Þessu neita jeg ekki. En jeg hygg, að með samvinnu milli þessara aðilja og Dýraverndunarfjelagsins mætti búast við góðum árangri, þannig, að þá mundi máske finnast mannúðlegri aðferð, sem þó spilti að engu veiðinni.

Eins og nefndarálitið ber með sjer, tel jeg vart gerlegt að banna veiðina, jafnvel þó við það verði að sitja, sem nú er, en ef hægt er að finna betri aðferð eða mannúðlegri, á að taka hana upp, og að sjálfsögðu á að leita að slíkri aðferð, og til þess tel jeg þá 3 aðilja líklegasta til framkvæmda, sem jeg hefi þegar bent á.