11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

37. mál, dýraverndun

Jón Sigurðsson:

Það er ekki ætlun mín að fara að kýta um þetta mál. Það, sem okkur háttv. frsm. (St. St.) og mjer ber á milli, er það, hvort stjórnin hafi betur vit á þessu máli en Skagfirðingar. Jeg vil nú aðeins skjóta því til dóms háttv. deildar, hvort sennilegra sje í þessu efni.

Háttv. frsm. mintist á, að samvinna milli Dýraverndunarfjelagsins, stjórnarinnar og sýslunefndar Skagafjarðarsýslu mundi vera líklegust til þess að leiða af sjer nýja og happasæla aðferð. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir neinni slíkri samvinnu, og því engin trygging fyrir, að farið verði eftir eða leitað álits þeirra, sem vit hafa á þessu máli. Jeg er þeirrar skoðunar, að Dýraverndunarfjelagið og stjórnin hafi ekkert vit á þessu máli. Það er sýslunefnd Skagafjarðarsýslu og þeir, sem veiðina stunda, sem hafa þá þekkingu, sem með þarf til þess að geta gert tillögur um þetta mál af nokkru viti.

Ef leitað hefði verið álits eða umsagnar sýslunefndar Skagafjarðar eða einhverra annara þar, sem veiðiaðferðin er notuð, og stuðst við það, þá hefði málið horft öðruvísi við. En mjer finst það fjarstæða að eiga annað eins og þetta undir úrskurði stjórnarinnar, hver svo sem hún væri.

Að síðustu vil jeg geta þess, að mjer hefir borist símskeyti frá Dýraverndunarfjelaginu á Sauðárkróki, og það lýsir því yfir, að það hafi engan þátt átt í því, að ákvæði þetta kæmist inn í lögin. (B. J.: Hvernig veiðir kötturinn mýsnar?). Það gæti líka verið ástæða fyrir stjórnina og Dýraverndunarfjelagið að taka það til athugunar.