11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

37. mál, dýraverndun

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla ekki að lengja umræður, heldur aðeins skýra það betur fyrir háttv. þdm., að það eru að mestu leyti fátækir þurrabúðarmenn úr þorpunum í Skagafirði, aðallega Sauðárkróki og Hofsósi, sem stunda fuglaveiðar við Drangey, og það á þeim tíma vorsins, þegar hvergi er aðra vinnu að fá. Yrði nú þessi veiðiaðferð bönnuð, þá er það sama sem 30–40 þús. kr. tekjumissir á ári, sem kæmi harðast niður á fátæklingunum.

Jeg skal leyfa mjer að taka það fram til skýringar máli þessu, að sýslunefnd Skagafjarðar hefir um hríð haft heimild til þess að setja reglur um veiðiaðferð þessa og jafnvel banna hana. En enn sem komið er hefir sýslunefndin ekki sjeð sjer fært, hvorki að taka upp nýjar veiðiaðferðir nje banna þá, sem tíðkast hefir, án þess að eyðileggja atvinnu fátækra manna.

En sýslunefndin hefir sjeð um, að veiðin fari sem best fram. Hún hefir fastan eftirlitsmann í Drangey á vorin, til þess að sjá um veiðina o. fl. Og meðal annars á maður þessi að hafa eftirlit með því, að flekarnir sjeu vel festir og sem tryggilegast um þá búið. Jeg tek þetta fram vegna ummæla háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.).

Nú kemur það ekki fyrir, að flekar losni nema í afskapa veðrum, þegar ekki verður við neitt ráðið.

En það eru fleiri fuglar veiddir og ekki mannúðlegar við þá breytt, t. d. rjúpan, sem skotmaðurinn aðeins særir, en þó svo mikið, að hún verður að þola kvalafullan dauða fyr eða síðar. Margir hafa eflaust sjeð þetta; þó dettur engum í hug að banna að skjóta rjúpur.

Það er ekki rjett að setja í lög þau ákvæði, sem ekki er hægt að fylgja nema þá með algerðu banni. Engin stjórn myndi heldur framkvæma þessa fyrirskipun, eftir að hafa fengið allar upplýsingar hjá rjettum hlutaðeigendum.