13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

37. mál, dýraverndun

Magnús Guðmundsson:

Með því að svo óheppilega tókst til við 2. umr. þessa máls, að brtt. okkar þm. Skagfirðinga var ekki samþykt, og með því að þetta ákvæði um væntanlega fuglaveiðareglugerð er sett í frv. það, sem hjer liggur fyrir, vegna fuglaveiðanna í Drangey í Skagafirði, þá finn jeg ástæðu til að benda háttv. deild og hæstv. stjórn á, að jeg verð að álíta, að það sje með öllu óheimilt að setja reglugerð um veiðina á þessum stað, eins og nú er háttað.

Þannig stendur sem sje á, að til eru sjerstök lög, er heimila sýslunefnd Skagafjarðarsýslu að setja samþykt um veiðina í Drangey, og þessi samþykt hefir verið gerð og staðfest af stjórnarráðinu. Í þessari samþykt stendur, að henni verði ekki breytt nema á sama hátt og hún var sett.

Nú eru þessi sjerstöku lög um Drangeyjarveiðina ekki upphafin og þetta frv. gerir ekki ráð fyrir að svo verði. Jeg verð því að telja það ótvírætt, að þau haldi gildi sínu áfram og eins veiðisamþyktin, sem á þeim er bygð. Jeg verð þess vegna að halda því fast fram, að þótt þetta fuglaveiðaákvæði verði samþykt, þá geti það ekki undir neinum kringumstæðum náð til Drangeyjarveiðinnar, því að um hana gilda sjerstök lög. Er þetta í fylsta samræmi við venjulegar og viðurkendar lögskýringareglur. Jeg vil því leggja áherslu á það, að hæstv. stjórn hefir ekki heimild til, þótt þetta frv. verði að lögum, að setja neinar reglur um Drangeyjarveiðina, nema samþyktar sjeu af sýslunefnd Skagfirðinga í samþyktarformi. Þessu vil jeg sjerstaklega skjóta til hæstv. forsrh. (S. E.), því að málið mun heyra undir hann.

Að svo mæltu get jeg látið mjer í ljettu rúmi liggja, þótt þetta frv. verði samþykt eins og það liggur nú fyrir.