15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

37. mál, dýraverndun

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Allsherjarnefnd hefir tekið til athugunar mótmælin frá háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) og getur ekki fallist á skilning hans.

Nefndin álítur, að þessi lög, sem sett verði fyrir land alt, hafi meira gildi en tilskipun sú, er sýslunefndin í Skagafirði hefir fengið um þetta efni. Nefndin ræður því til, að frv. verði samþykt óbreytt.

Það má vera, að sumir lagamenn hafi sama skilning á þessu atriði og háttv. 1. þm. Skagfirðinga, en til eru aðrir, sem hafa sama skilning og nefndin á þessu máli, sem sje, að þessi lög hafi víðtækara gildi, þar sem þetta verða almenn lög, og nái því einnig til Drangeyjar, þótt til sjeu eldri sjerstök lagaákvæði.