25.03.1922
Efri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

37. mál, dýraverndun

Einar Árnason:

Lögin um dýraverndun frá 1915 gera svo ráð fyrir, að stjórnin setji reglur um aflífun búpenings á almennum slátrunarstöðum. Þessar reglur hefir stjórnin sett árið 1916 og fyrirskipað aflífun sauðfjár með skoti. Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, fer í þá átt að breyta lögunum á þann hátt, að þessi ákvæði nái til slátrunar á öllum húsdýrum, hvar sem er á landinu, og einnig til fuglaveiða.

Jeg er nú hræddur um, að slík lög yrðu einungis pappírsgagn, vegna þess, að erfitt yrði að hafa eftirlit með, að þeim yrði framfylgt. Þó tel jeg þetta ekki neina meginástæðu gegn þessu frv., því það væri óneitanlega æskilegt, að hægt væri að færa slátrun búpenings alment í betra horf.

Um fuglaveiðar orkar tvímælis, hvort hægt sje að setja beinlínis reglur, sem geti komið að liði.

Það, sem jeg sjerstaklega hefi á móti þessu frv., er það, að samkvæmt því má ekki deyða skepnur öðruvísi en með skoti. Að fyrirskipa að deyða þannig alt sauðfje, sem slátrað er úti um land, finst mjer alls ekki geta komið til mála. Því að slíkt yrði í mörgum tilfellum ekki einungis óframkvæmanlegt, heldur hættulegt.

Jeg er ósammála háttv. frsm. (S. F.) um það, að rothöggið sje eigi góð deyðingaraðferð. Get jeg þar vitnað til umsagnar Sigurðar Hlíðar dýralæknis. Telur hann rothöggið deyða eins vel og skot.

Við skotdeyðingu eru að minsta kosti þrír ókostir:

1) Það er aldrei hægt að fyrirbyggja, að eigi geti hlotist slys af skotunum. Hefir það enda komið fyrir, síðan farið var að deyða sauðfje með skotum á slátrunarhúsum.

2) Skotvopnin bila endalaust, og þarf því altaf að hafa mörg í takinu, ef örugt á að vera.

3) Skotvopnin eru dýr og notkun þeirra miklu dýrari en helgríma.

Jeg er vel kunnugur notkun helgríma. Hefir sú aðferð jafnan verið notuð á Akureyri. Er það áreiðanlega langhandhægasta og öruggasta aðferðin.

Jeg mun því greiða atkvæði móti frv. þessu, nema jeg fái skýra og ótvíræða yfirlýsingu stjórnarinnar um það, að hún ákveði í reglugerðinni, að rothöggi skuli gert jafnt undir höfði og skoti. En fái jeg eigi skýlaust svar, þá greiði jeg atkv. móti þessu frv. Mun jeg þá flytja þingsályktunartillögu um að skora á stjórnina að leyfa deyðingu með rothöggi.