06.04.1922
Neðri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

63. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg get verið þakklátur háttv. sjútvn. fyrir undirtektir hennar í þessu máli, en hefi síður ástæðu til að þakka háttv. fjvn. En jeg vænti þess nú, ef brtt. mín á þskj. 204, sem jeg hefi flutt í samráði við bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar, nær fram að ganga, þá hafi fjvn. heldur ekki neitt við frv. að athuga. Háttv. sjútvn. hafði ekkert á móti því, að ríkissjóður styrkti hafnarbætur á Ísafirði með einum þriðja kostnaðar, og þar sem jeg nú hefi komið fram með brtt. um, að ríkissjóðsstyrkurinn verði lækkaður niður í einn fjórða kostnaðar, vænti jeg, að allir háttv. þm. muni geta samþykt frv.

Mjer skildist svo, að fjvn. væri á móti frv. í heild sinni, en það mun vera að því er fjárhagshliðina snertir. En þetta frv. snertir ekkert fjárhag ríkissjóðs nema þá til bóta. Það gerir hafnarsjóð Ísafjarðar færari til að framkvæma endurbætur á höfninni, sem svo aftur leiðir til aukins sjávarútvegs og þar af leiðandi aukinna tekna fyrir ríkissjóð. Jeg veit ekki betur en að Ísafjarðarkaupstaður og Ísafjarðarsýsla hafi að undanförnu verið drýgsta mjólkurkýr í ríkissjóðinn, en til Ísafjarðar hefir ekkert fje verið veitt úr ríkissjóði, nema til almennrar barnafræðslu og unglingaskóla. Því virðist mjer ekki ósanngjarnt, að ríkissjóður veiti nokkurt fje til endurbóta á höfninni þar, sjerstaklega þegar bæjarsjóðnum er mjög um megn að rísa undir slíkum framkvæmdum.