06.04.1922
Neðri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

63. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Magnús Pjetursson:

Þótt fjvn. hafi ekki ætlað að tala um þetta mál nú, þá þykir mjer rjett að gera aths. við það, sem hjer hefir verið sagt. Háttv. frsm. (M. J.) þótti fjvn. hafa farið út fyrir verksvið sitt, að leggja á móti frv. nú. En þar við er það fyrst að athuga, að fjvn. lagði ekki á móti frv. í heild sinni, heldur að því er snertir fjárhagsatriði þess, og nægir í því að benda til fyrirsagnarinnar á þskj. 199, sem er „Álit um fjárhagsatriði frv. til hafnarlaga fyrir Ísafjörð“. En út af því að það heyrði ei nú undir fjvn. að fjalla um þetta, heldur væri nógur tími fyrir hana þegar það atriði kæmi til kasta fjárveitingavaldsins samkvæmt 1. gr. frv., er þess að geta, að þegar búið er að lögheimila, að veitt sje fje til einhverra mannvirkja, þá gengur það á undan öðrum mannvirkjum, sem ólögboðin eru. En fjárveitinganefnd áleit, að önnur mannvirki á þessu sviði væru nauðsynlegri en þetta, en svo vildi hún ekki heldur með bendingum í lögum gefa fyrirheit um fjárframlög til stórmannvirkja á þessum tímum, þegar allar framkvæmdir verða að lúta í lægra haldi fyrir lögboðnum gjöldum. Mundi slíkt koma undarlega fyrir sjónir.