22.04.1922
Neðri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

Kosningar

Forseti (B. Sv.):

Í sambandi við 4. mál á dagskrá, sem er kosning eins manns í stjórn Minningarsjóðs Jóns alþingismanns Sigurðssonar frá Gautlöndum fyrir þann tíma, sem eftir er árabilsins frá 1. jan. 1920 til 31. des. 1925, vil jeg geta þess, að einn nefndarmanna, Eiríkur prófessor Briem, hefir sent deildinni svo felt brjef:

„Á Alþingi 1919 var jeg endurkosinn stjórnarnefndarmaður í stjórn Minningarsjóðs Jóns alþingismanns Sigurðssonar frá Gautlöndum fyrir tímabilið frá 1. jan. 1920 til 31. des. 1925.

En þar sem jeg er nú fluttur burtu úr Reykjavík, leyfi jeg mjer hjer með virðingarfylst að beiðast þess, að hinni hv. Nd. hins háa Alþingis mætti þóknast að leysa mig frá þessu starfi og kjósa annan mann í minn stað fyrir þann tíma, sem eftir er af kjörtímabilinu, um leið og kosinn verður maður í stjórn nefnds sjóðs í stað Pjeturs heitins ráðherra Jónssonar.

Virðingarfylst,

Eiríkur Briem.“

Samkvæmt þessari beiðni ber jeg það undir deildina, hvort hún vilji veita Eiríki Briem lausn frá starfinu.