27.03.1922
Efri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

64. mál, löggilding verslunarstaðar að Kaldrananesi

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi aldrei lagt í vana minn að leggjast á lítilmagnann, en þó get jeg ekki leitt þetta mál alveg hjá mjer.

Á fyrri þingum hefir það verið vani minn að mæla heldur móti löggildingum nýrra verslunarstaða, sem koma nálega fyrir hvert einasta þing. Er ástæðan til þess sú, að þetta eykur mjög starf lögreglustjóra og veldur þeim ýmislegum óþægindum og erfiðleikum við tollgæslu. Á fyrri þingum var og annar þingmaður, sem mælti gegn frv. um löggilding nýrra verslunarstaða. Þessi þingmaður var Tryggvi sál. Gunnarsson. Hann áleit, að verslunin veiktist við þessa fjölgun löggiltra verslunarstaða og það væri því aðeins til skaða verslun og þjóð. Fyrir þessari löggildingarsótt, sem vel má kalla svo, hafa menn fært þær ástæður helstar, að erfitt væri eða alveg ómögulegt að fá skip vátrygð til þeirra hafna, sem ekki væru löggiltir verslunarstaðir. Jeg hefi grenslast eftir þessu hjá erlendum vátryggingarfjelögum og komist að raun um, að það er helber vitleysa. Fjelögin taka ekkert tillit til þess, hvort höfnin er löggilt eða ekki, heldur fara þau eingöngu eftir því, hvort skerjótt er úti fyrir eða önnur hætta fyrir skipin á leiðinni til hafnarinnar. Þessi umgetna ástæða er því í rauninni engin ástæða, ekkert nema tóm hræðsla við að fá ekki skip vátrygð.

Það hefir og komið í ljós síðar, að engin ástæða hefir verið til þess að biðja um sumar þessar löggildingar vegna verslunarþarfa. Hitt hefir stundum verið ástæða umsækjanda að koma jörðinni í hærra verð með því að fá hana löggilta sem verslunarstað. Veit jeg um slíkt dæmi vestur við Breiðafjörð, að jörð hefir verið talið það til ágætis og reynt að græða á því, að hún var löggiltur verslunarstaður. Er þetta því mest vatn á mylnu braskaranna.

Kringum land er heill fjöldi af löggiltum verslunarhöfnum, sem ekkert eru notaðar í því skyni. Við Faxaflóa einan eru þær fjölmargar. Má þar nefna: Hrafnabjörg, Seleyri við Borgarfjörð, Maríuhöfn, Voga o. fl.

Mjer datt í hug, að þm., sem hlyntir eru þessum löggildingum, ættu að gera brtt. við frv. þetta til 3. umr., þannig að gera allar strendur landsins löggilta verslunarstaði. Gæti það sparað þinginu mikla vinnu framvegis.