20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Sveinn Ólafsson:

Þessar brtt. mínar á þskj. 125 eru fram komnar vegna þess, að mjer virðist það ekki koma nógu ljóslega fram í 1. gr. frv., sem fjvn. þó í raun og veru ætlast til, að hjer sje átt við útflutning silfurbergs úr landi og sölu til útlanda. Af frv. má ráða, að átt sje við sölu innanlands. Það er mörgum kunnugt, að hinn svokallaði silfurbergshroði er talsvert notaður til skrauts hjer og annarsstaðar á ýmsan hátt, og gengur í skiftum manna á milli eins og hver annar varningur. Og jeg sje enga ástæðu til þess að ríkið skifti sjer af slíkum innanlandsskiftum. Því kom jeg fram með þessar brtt. Önnur till. lýtur að fyrirsögn frv., sem jeg tel, að betur fari þannig, ef brtt. mín við 1. gr. frv. er samþykt. Jeg skal geta þess, að silfurberg eða silfurbergshroði mun vera víðar hjer á landi en alment er álitið. Jeg þekki nokkra staði á Austfjörðum, þar sem það hefir fundist, og líkur eru til, að það sje víðar, en hvergi hefir náma verið brotin að nokkru ráði, nema í Helgustaðafjalli.