20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Eiríkur Einarsson:

Það er leitt, að hv. frsm. (B. J.) er ekki viðstaddur, því að það er líklegt, að hann hefði viljað svara hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.).

Jeg get ekki látið hjá líða að lýsa yfir vanþóknun minni á brtt. þessa hv. þm., þar sem mjer virðist hún hafa í för með sjer ástæðulausa undanþágu frá frv.

Að mínum dómi þarf að tryggja eftirlit með þessari dýru og fágætu vöru jafnt í landinu sjálfu og út úr því, en jeg vil minna hv. 1. þm. S.-M. á það, að þessi heimild gæti hæglega orðið til þess, að miður hlutvandir menn beittu brögðum og seldu silfurberg út úr landinu eftir óeðlilegum krókaleiðum.

Sú ástæða hv. þm. fyrir brtt., að silfurberg sje notað til skrauts hjer á landi og seljist því manna á milli, er í rauninni engin ástæða, því ef silfurbergið er sá dýrgripur, sem ætlað er, ber fyrst og fremst að líta á, að hann sje vel trygður, og það er það aðeins á þann hátt, að sala þess sje á einni hendi bæði innanlands og utan.

Það silfurberg, sem nú er manna á meðal í landinu, kemur ekki undir þessi lög, heldur aðeins það, sem óunnið er. Það kemur því ekki þessu máli við, þótt nokkuð sje notað sem glingur í stofum, en annars hygg jeg, að silfurberg sje ekki mjög eftirsótt til þeirra hluta, að minsta kosti hlýtur það að vera aukaatriði í þessu sambandi, enda myndi þetta sora-silfurberg fást til stáss eftir sem áður, þótt ríkið hefði einkarjett.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) taldi ótímabært að gera þessar ráðstafanir, sem frv. fer fram á, meðan ekki er víst, hvort náma landssjóðs sje tæmd. Að minni hyggju er frv. tímabært og gott án tillits til þessa, því þótt náman í Helgustaðafjalli sje tæmd, eða nærri tæmd, sýnir það aðeins, að því meiri ástæða er til þess að varðveita vel það litla, sem eftir kann að vera eða finnast síðar, svo ekki fari jafnilla og fyrirfarandi, því það er vitanlegt, að fyrirfarandi hefir þessi vara sætt óforsvaranlegri meðferð og hirðuleysi. Þar sem nú eru líkur til þess, að silfurberg finnist víðar en í námunni í Helgustaðafjalli, er fullkomin þörf og skylda að byrgja þann brunn áður en það er um seinan. Það á að tryggja góða meðferð á silfurbergi, án tillits til þess, hvort mikið er til af því eða lítið, og því minna, því meiri nauðsyn, svo því litla verði ekki eytt af handahófi.