20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Sveinn Ólafsson:

Jeg hygg, að hv. 1. þm. Árn. (E. E.) misskilji dálítið brtt. mína. Jeg held, að hann hafi ekki athugað það, að aðeins nokkur hluti silfurbergs er hæfur til útflutnings. Mikill meiri hluti er óhæfur.

Mjer er að vísu kunnugt um, að svonefndur silfurbergshroði hefir verið fluttur út, en hann er ekki til „optiskra“ tækja hafður, svo sem skærir og hreinir silfurbergskrystallar. Venjulega mun hann notaður til skrauts eða „kemiskrar“ sodavinslu, og verð hans skiftir litlu eða er afarlágt. Þessi silfurbergshroði er venjulega nefndur silfurberg, en þar sem enginn hagnaður virðist geta verið að sölu á þessum „hroða“ eða „rosta“, sem sumir nefna það, er ekki ástæða til, að ríkið hlutist til um sölu þess.

Fyrsta grein þessa frv. er á þá lund, að ætla má, að öll sala á silfurbergi verði áskilin ríkinu, og vil jeg þá spyrja háttv. flutningsmenn, hvort þeir ætlist til, að ríkið kaupi einnig „hroðann“. Ef ríkið vill það ekki, þykir mjer kynlegt, ef ekki má selja hann öðrum.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) kom fram með þá athugasemd, að með því að samþykkja þetta frv. tæki ríkið þá skyldu á sig að leita að meira silfurbergi, er Helgustaðanáman reyndist þrotin, og gæti það orðið ærið kostnaðarsamt. Jeg er ekki á sama máli og hv. þm. Það er næsta líklegt, að silfurberg sje víðar að finna en á Helgustöðum, og víst er um það, að allvíða má sjá sömu blendings bergtegundina og þar til og frá um Austfirði. Jeg veit að minsta kosti af einum stað öðrum, þar sem silfurberg hefir fundist og í vændum er, að það verði unnið. Ríkið þarf að fá umráð yfir þeirri námu og öðrum, sem kynnu að finnast.

Jeg skil ekki, að ríkið baki sjer skuldbindingu um það að leita meira en tiltækilegt þykir, þótt Helgustaðanáman reyndist tæmd.