20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Sveinn Ólafsson:

Hv. þm. Dala. (B. J.) endurtók þrisvar það sama, að ef brtt. væri samþykt, mundi hún kenna mönnum að fara kringum lögin í því að flytja silfurberg út úr landinu. Jeg held nú þvert á móti, að frv. eins og það er freisti manna til þessa, af því að það leggur óeðlileg bönd á lítilsverð viðskifti. Það verður sennilega ekki aukin strandgæsla svo muni fyrir þessu og jafnerfitt að gera við því, að óleyfilega verði flutt út.

En það út af fyrir sig, að menn geta ekki farið annað en til ríkisstjórnarinnar til þess að eignast eða afhenda fundinn silfurbergsmola, það freistar margra til að koma silfurbergi út úr landinu á einn eða annan hátt.

Jeg get bent á það í sambandi við það, sem hv. frsm. (B. J.) sagði um notkun silfurbergs í stríðsþarfir, að fyrstu stríðsárin var Helgustaðanáman í höndum Frakka, og þó ekkert að því fundið nje um það talað af hinum stríðsþjóðunum. Alt skraf hv. þm. um silfurberg í stríðsþarfir er fjarstæða.

Hv. frsm. (B. J.) hjelt fram, að hver og einn gæti eftir sem áður eignast silfurbergsmola hjá landsstjórninni, og efast jeg alls ekki um það. En mjer finst það kringileg krókaleið, að skrifast á við stjórnina um slíka smámuni eins og það, hvort menn geti fengið keypta þá mola, sem ekki eru útflutningshæfir og oftast verðlausir með öllu. Þetta hefir líka viðgengist, að silfurbergsrosti hefir verið látinn til innlendra manna og útlendinga og ekki komið að sök.

till. hv. frsm. (B. J.) að taka allar silfurbergsnámur eignarnámi kemur ekki þessu máli við; þó tel jeg líklegt, að á slíka till. gæti jeg fallist, því jeg er einkasöluhugmyndinni hlyntur. En á þetta hefir ekki reynt ennþá og er óathugað mál. Eignarnámi var ekki beitt við Helgustaðanámu, heldur keypti landssjóður hálflenduna af fyrri eiganda eftir frjálsum samningi, en hinn helmingurinn var forn klaustureign.