20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Jeg verð að taka undir það, sem hv. frsm. (B. J.) sagði, að ætla hefði mátt, að frv. þetta gengi fram umræðulítið. Hv. 1. þm. S.-M. (Sv.O.) sýndi mjer brtt. sínar áður en hann ljet þær fara og sagði mjer, hver tilgangur sinn væri, sem sje sá, að fyrirbyggja það, að menn þyrftu að sækja um leyfi til stjórnarinnar til þess að eignast silfurbergssora, sem notaður væri til skrauts. Mjer fanst þá ástæðulaust að fara til ríkisstjórnarinnar í þeim erindum að fá þennan sora keyptan, því hann hlýtur að liggja eins og hráviði í kringum námuna, eins og sjá má af því, að úr einum 60 tonnum fæst aðeins 3 þúsund kg. af hreinu silfurbergi samkvæmt brjefi námaverkfræðingsins.

Þess vegna leit jeg svo á, að brtt. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. O.) væri meinlaus, því það væri ekki meining frv. að meina mönnum að eignast þennan sora. En nú sje jeg, að lagður er sá skilningur í brtt., að verði hún samþykt, sje hægt að fara á bak við frv. og rýra tilgang þess. Verði sá skilningur lagður í hana, er auðvitað varhugavert að samþykkja brtt.

Viðvíkjandi því, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði um frestun og áskorun til stjórnarinnar um að láta rannsaka, hvort silfurberg finnist ekki víðar hjer á landi, þá lít jeg svo á, að stjórninni beri skylda til að framkvæma þessar rannsóknir, bæði með það fyrir augum, að Helgustaðanáman kann að þrjóta, svo og hitt, að silfurberg finst, mjer vitanlega, ekki annarsstaðar í heiminum, en eftirspurnin afarmikil. Þess vegna mælir ekkert á móti því, að frv. nái fram að ganga.

En yrði nú frv. ekki samþykt, og við gerum ráð fyrir, að einstakir menn ljetu reka þennan námaiðnað strax í sumar, þá gæti farið svo, að það mikið silfurberg kæmi á markaðinn, að landið biði stórskaða af sínum námurekstri.

Það hefir verið sagt, að náman í Helgustaðafjalli myndi að þrotum komin. En brjef námuverkfræðingsins, sem jeg nefndi áðan og er að vísu nokkuð gamalt, segir, að nóg muni af silfurbergi þar enn. Eins og kunnugt er, þá dvelur námuverkfræðingurinn þar eystra nú og hefir verið þar um mánaðartíma. Hefir hann því eflaust rannsakað frekar þetta atriði, sem um er deilt, og mætti því fá frá honum símleiðis nú þegar allar nánari upplýsingar.

Af öllu þessu samanlögðu verð jeg að leggja til, að frv. verði samþykt. Jeg sje ekki, að það hafi neinn skaða í för með sjer, en getur aftur á móti orðið landinu til stórgróða.