22.03.1922
Neðri deild: 29. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Þegar eftir aðra umræðu þessa máls sendi jeg símskeyti til námuverkfræðings Helga H. Eiríkssonar og bað hann að senda skýrslu um, hve mikið hann teldi vera af silfurbergi í námunni.

Frá honum hefi jeg fengið svo hljóðandi símskeyti:

„Með tilvísun til rannsóknarskýrslu minnar, og eins og að ráðuneytinu er að öðru leyti kunnugt, þá var ný vinsluaðferð samþykt af síðasta Alþingi og tekin upp, er jeg tók við. Námugöngin eru ekki fullgrafin ennþá; býst við silfurbergi í júní. Engar líkur náman sje tæmd; kvantum vitanlega óákveðið. Kem væntanlega suður um mánaðamótin með nánari skýringu“.

Þetta skeyti ber það með sjer, að engar líkur eru fyrir því, að náman sje tæmd, eins og sumir þm. vildu halda fram við 2. umr. En auðvitað er ekki hægt að segja um það fyr en síðar, hversu mikið þar kann að vera af silfurbergi.