04.04.1922
Efri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Björn Kristjánsson:

Frv. þetta mun fram komið eftir till. þess manns, sem nú vinnur við Helgustaðafjallsnámuna eða sjer um vinsluna. Lítur hann vafalaust svo á, að þetta geti orðið landinu til gróða, ef silfurberg finst annarsstaðar. Það getur líka orðið til að tryggja starf þessa manns framvegis.

Þess ber nú vel að gæta, að þessi umgetna vara, silfurbergið, mun aðeins vera til hjer á Íslandi, og ef ríkið tekur í sínar hendur einkarjett til sölu þessarar vöru, þá fær það um leið skyldu á herðar, að reyna að hafa vöruna til og láta leita annarsstaðar eftir silfurbergi á sinn kostnað, ef þessi náma bregst. Þetta mál snertir því í raun rjettri talsvert utanríkismál, því að aðrar þjóðir eiga rjett á að krefjast þess, að vjer reynum að hafa það á boðstólum, ef mögulegt er. En þessi lög útiloka, að nokkur „privat“maður vilji leita eftir silfurbergi á sinn kostnað. Það væri ofmikil áhætta, er valdið væri svo tekið frá honum til að selja silfurbergið. Skyldan til að leita kæmi þá til að hvíla á ríkissjóði.

Mjer er kunnugt, að leitað hefir verið á Hoffelli fyrir austan, og jeg hefi meira að segja leitað þar sjálfur heilt sumar. Fanst þar dálítið silfurberg, sem lá ofan á, en var orðið slæmt og eytt. Leitaði þar svo annar maður í fyrra sumar, en fann ekkert. Þetta er nú eini staðurinn, þar sem silfurberg hefir fundist vinnanlegt í bili, auk Helgustaðafjallsnámunnar.

Eins og er hefir landið einkarjett til silfurbergssölunnar, og þessi lög gera því aðeins einkarjettinn meira áberandi. Sala á silfurbergi er líka afarvarasöm og þarf valinkunnan verslunarmann til að sjá um hana, því að fá manni hana í hendur er sama sem að afhenda einhverjum stóran ótalinn peningasjóð. Í öðrum löndum er einkasala altaf illa sjeð, og er okkur því áreiðanlega best að láta sem minst bera á þessari einkasölu ríkisins. Það eru auk þess fáir og sjerstakir menn, sem kaupa silfurbergið, og geta þeir þá auðveldlega myndað hring og sett verð á það eftir sínum geðþótta. Væri þá ver farið en heima setið.

Jeg er því hræddur um, að frv. komi eigi að tilætluðum notum, þótt það verði samþykt, og þori eigi að greiða því atkv. og ræð háttv. þdm. frá því að láta það ná fram að ganga.